Lóðirnar hækkuðu um 3,6 milljarða

Drög að fjölbýlishúsunum á einni lóðinni á Ártúnshöfða.
Drög að fjölbýlishúsunum á einni lóðinni á Ártúnshöfða. Teikning/JVST arkitektar/Þorpið vistfélag

Sumarið 2019 sagði Viðskiptablaðið frá því að samningar hefðu verið undirritaðir um uppbyggingu á 10 hektara landi á Ártúnshöfða.

Með fréttinni fylgdi mynd af þeim Ingva Jónassyni framkvæmdastjóra Klasa, Degi B. Eggertssyni, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, og Pétri Árna Jónssyni, framkvæmdastjóra Heildar fasteignafélags, undirrita samning um uppbygginguna.

Klasi og Heild fasteignafélag, fyrir hönd Árlands ehf., voru sögð stærstu lóðarhafar fyrir utan borgina.

Áætlað byggingarmagn á lóðum Árlands væri um 80 þúsund fermetrar.

Hinn 29. október 2021 sagði Viðskiptablaðið svo frá því að Þorpið 6 ehf., dótturfélag Þorpsins vistfélags, hefði keypt byggingarrétt á Ártúnshöfða að 80 þúsund fermetrum ofanjarðar. Seljandi væri Árland ehf., félag í eigu Agros fjárfestingasjóðs. Heildarfjárhæð samningsins væri 7 milljarðar króna en Arctica Finance hefði stýrt fjármögnun verkefnisins fyrir Þorpið.

Það var svo sagt frá því í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag að Þorpið 6 ehf. hefði selt félaginu Skugga 4 ehf. byggingarréttinn á Ártúnshöfða.

Tvíþætt viðskipti

Samkvæmt heimildum blaðsins greiðir Skuggi annars vegar 683 milljónir fyrir lóðina Breiðhöfða 9 og hins vegar 10,3 milljarða fyrir um 80 þúsund fermetra af byggingarrétti. Samanlagt greiði Skuggi því um 11 milljarða fyrir byggingarlóðir sem Þorpið keypti í lok október 2021.

Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar eru 7,4 milljarðar í október 2021 um 9 milljarðar á núvirði, á verðlagi í mars 2024. Lóðirnar hafa því hækkað um 2 milljarða króna á núvirði en frá því dregst vaxtakostnaður hjá Þorpinu 6 ehf. sem átt hefur lóðirnar í tvö og hálft ár. Á það má benda að meginvextir Seðlabanka Íslands voru 1,5% í október 2021 en eru nú 9,25%.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert