„Sláturhúsin standa tóm svo mánuðum skiptir“

Bjarni Benediktsson og Sigmar Guðmundsson tókust á í þingsal í …
Bjarni Benediktsson og Sigmar Guðmundsson tókust á í þingsal í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, tókust á um nýsamþykkt búvörulög í óundibúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Við þurfum að aðlaga okkur að þeirri staðreynd og horfast í augu við það að framþróun í þessari grein hefur orðið afskaplega takmörkuð og lítil. Sláturhúsin standa tóm svo mánuðum skiptir,“ sagði Bjarni.

Sigmar hóf umræðuna og benti á að búvörulögin hefðu verið samþykkt af meirihluta þingsins fyrir páska.

Helsta vörn neytenda og bænda

„Þar var helstu vörn neytenda og bænda gegn ofríki einokunar og verðsamráðs ýtt til hliðar með því að kippa samkeppnislögum úr gildi. Venjulegar samkeppnisreglur gilda núna ekki um starfsemi stórra fyrirtækja í landbúnaði. Þau mega núna að hafa með sér samráð um verð og verkaskiptingu,“ sagði Sigmar. 

Hann bætti við að venjulegar samkeppnisreglur gildi núna ekki um starfsemi stórra fyrirtækja í landbúnaði. Þau megi nú hafa með sér samráð um verð og verkaskiptingu. Sigmar spurði Bjarna hvernig hann ætli sér að bregðast við þeirri hörðu gagnrýni sem hafi komið fram á lögin, m.a. frá Alþýðusambandinu, Neytendasamtökunum, Félagi atvinnurekenda, Samkeppniseftirlitinu og matvælaráðuneytinu.

Tryggði fyrirkomulagið eðlilegar framfarir?

Bjarni spurði hvort fyrirkomulagið, eins og það hafi byggst upp undanfarin ár, hefði tryggt að eðlilegar framfarir væru að eiga sér stað hjá afurðastöðvum í landinu.

„Nú er það svo að verulegur hluti þess nautakjöts sem neytt er á Íslandi er innflutt kjöt. Það er líka töluvert mikið magn af alifuglakjöti flutt inn til landsins. Þetta kjöt sem flutt er inn til landsins, svínakjöt mætti ég líka nefna hér, kemur ekki úr verksmiðjum sem í neinu tilviki verða bornar saman við þær sem er að finna á Íslandi. Þetta eru risafyrirtæki sem eru með vélarnar gangandi allan sólarhringinn þegar þörf er á þeim afköstum,“ sagði Bjarni.

Bjarni hefur efasemdir 

Þetta séu fyrirtæki sem framleiða sínar vörur með hátæknilausnum og hámarka virði fjárfestingarinnar þannig að hægt sé að bjóða neytendum vöruna á sem lægstu verði.

„Er þetta þannig á Íslandi? Er hægt að setja menn í þá stöðu hér, sem eru að framleiða neytendavörur fyrir markaðinn frá frumframleiðendum kjöts á Íslandi, sama hvort er í nauti, alifuglakjöti eða svínakjöti, að banna þeim að sameinast, sem hefur verið mjög erfitt fyrir þá að gera, vegna þess að einstaka fyrirtæki, eins og t.d. Fjallalamb, sé svo mikilli risi og svo umfangsmikið á íslenskum markaði að það þurfi að gæta að því hvernig eignarhaldinu sé háttað? Ég hef haft efasemdir um þetta vegna þess að ég sé að fjárfestingin í afurðastöðvunum er ekki að bera sig sérstaklega vel,“ sagði Bjarni. 

Sigmar ósáttur við svör ráðherra

Sigmar gagrýndi málflutning ráðherra og sagði hann gefa ekkert fyrir þá gagnrýni sem fram hefði komið á vinnubrögð Alþingis í málinu.

„Rökin eru þau að samkeppnin kemur að utan gagnvart bændum. En þau fyrirtæki sem núna eru undanþegin samkeppnislögunum eru sjálf að flytja inn þessar landbúnaðarafurðir. Það er því verið að verja þessi fyrirtæki gegn samkeppni frá þeim sjálfum. Svo einfalt er það,“ sagði Sigmar. 

Hann spurði Bjarna hvort hann tæki undir að þetta hefðu verið eðlileg vinnubrögð „og úr því að svo er, er þá ekki bara best að stíga skrefið til fulls og afnema samkeppnislög á fleiri mörkuðum?“

Framleiðslan á tiltölulega fáum höndum

Bjarni sagði að Sigmar þyldi greinilega ekki að málið væri rætt í einhverju eðlilegu samhengi.

„Staðreyndin í þeim heimi sem við búum í er að í flestum löndum er framleiðslan í þessum geira á tiltölulega fáum höndum. Við þurfum að aðlaga okkur að þeirri staðreynd og horfast í augu við það að framþróun í þessari grein hefur orðið afskaplega takmörkuð og lítil. Sláturhúsin standa tóm svo mánuðum skiptir, ekkert er fjárfest í nýsköpun í þessu og við því er verið að reyna að bregðast til að neytendur fái betri vöru og hægt sé að greiða frumframleiðendum hærra verð fyrir afurðirnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert