„Allavega fimm bíla árekstur“ í Ljósavatnsskarði

Margt er enn óljóst. Í hið minnsta 5 bílar lentu …
Margt er enn óljóst. Í hið minnsta 5 bílar lentu í árekstri, en ekki er útilokað að fleiri hafi lent í árekstri. Ljósmynd/Lögreglan

Í það minnsta fimm bílar lentu í tveimur mismunandi árekstrum í Ljósavatnsskarði fyrr í kvöld. Er lögregla bar að garði var þó aðeins einn ökumaður á vettvangi.

Þetta segir María Borg Gunnarsdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Að hennar sögn þá er ekki vitað til þess að slys hafi orðið á fólki en vegna slæmra veðurskilyrða þá virðist fólkið hafa ákveðið að yfirgefa vettvang.

Mjög óljóst að svo stöddu

Tveimur bílum var ekið í burtu af vettvangi en Þrír bílar voru skildir eftir. Ekki er vitað hversu margir farþegar voru í bílunum.

„Þetta er rosalega óljóst eins og er,“ segir María.

Aðeins einn ökumaður var á vettvangi hjá bílnum sínum er lögregla bar að garði en þá höfðu ökumenn hinna tveggja bílana sem eftir voru yfirgefið vettvang. Lögregla hefur þó náð sambandi við þá bílaeigendur.

Misvísandi framburður

Ekki liggja fyrir upplýsingar um bílana sem ekið var af vettvangi. Þá er það ekki staðfest að svo stöddu aðeins sé um tvo bíla að ræða sem yfirgáfu vettvang. Misvísandi framburður hefur borist frá fólki og er lögregla enn að afla sér upplýsinga.

„Þetta er allavega fimm bíla árekstur,“ segir María, en ekki er útilokað að fleiri bílar hafi lent í árekstri í Ljósavatnsskarði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert