Grynnra á dýpra kvikuhólfið en áður var talið

Gosið mallar enn.
Gosið mallar enn. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Athuganir jarðskjálftahóps Háskólans í Uppsölum stangast á við fyrri hugmyndir um legu kvikuhólfsins undir Fagradalsfjalli.

Áður var talið að það sæti í efsta hluta möttulsins á meira en 15 km dýpi en samkvæmt niðurstöðum jarðskjálftahópsins er það beint undir Fagradalsfjalli á um 8 til 12 km dýpi, þ.e. í efri hluta neðri jarðskorpunnar.

Umrætt kvikuforðabúr er um 10 km breitt og inniheldur frekar frumstæða kviku.

Þetta kemur fram í tilkynningu rannsóknareiningar Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá.

Kom beint úr dýpra kvikuhólfinu

Grynnra kvikuforðabúið sem situr á um 4 til 5 km dýpi undir Svartsengi geymir þróaðri kviku.

Kvika flæðir úr dýpra kvikuforðabúinu og í það grynnra sem er orsök landrissins í Svartsengi.

Hefur atburðarásin verið með þeim hætti að þegar grynnra forðabúið er orðið fullt, og hefur þá tekið við um 10 til 15 milljón rúmmetrum af kviku, rofnar þakið og eldgos brýst út.

Meðfylgjandi teikning sýnir legu og afstöðu forðabúranna sem hýsa kvikuna …
Meðfylgjandi teikning sýnir legu og afstöðu forðabúranna sem hýsa kvikuna og gosrásirnar sem flytja kvikuna upp í gosstöðvarnar á Reykjanesskaganum. Skýringarmynd/Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá

Staldraði við í grynnra forðabúrinu

Þess má geta að kvikan sem kom upp í eldgosunum í Fagradalsfjallskerfinu árin 2021 til 2023 kom beint úr neðra kvikuforðabúrinu. 

Kvikan sem hefur komið upp í eldgosum við Sundhnúkagígaröðina kom upphaflega úr sama hólfi, þ.e. dýpra kvikuforðabúrinu, en með viðkomu í grynnra forðabúrinu.

Fram að þessu virðist kvikan hafa staldrað við í grynnra forðabúrinu í um 3 til 5 vikur og þróast, orðið eðlisléttari, áður en hún kom upp til yfirborðs í eldgosi.

Breyting virðist þó hafa orðið á þessari atburðarás í eldgosinu sem stendur nú yfir.

Hluti kvikunnar flæðir í grynnra hólfið

Rétt eins og í fyrri eldgosum flæddi kvika fyrst úr dýpri kvikuforðabúrinu og upp í það grynnra. Þegar þolmörkum var náð brast þakið og kvika streymdi upp um gosrás til yfirborðs suðaustan við Stóra-Skógfell.

Allt benti til þess að um stutt gos yrði að ræða rétt eftir að gosið hófst en svo varð ekki raunin. Flæðir kvika enn upp um gossprunguna.

Landris í Svartsengi er sömuleiðis hafið að nýju en þó mun hægar en áður. Bendir þessi þróun til þess að kvikan sem nú streymir til yfirborðs komi úr dýpra kvikuhólfinu. Hæga landrisið gefur jafnframt til kynna að lítill hluti kvikunnar fari í grynnra kvikuforðabúrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert