Í 8 mánaða fangelsi fyrir brot gegn ungum stúlkum

Maðurinn var ákærður í þremur ákæruliðum. Var hann sakfelldur í …
Maðurinn var ákærður í þremur ákæruliðum. Var hann sakfelldur í 1. og 3. ákærulið en sönnunargögn skorti til að sakfella hann í 2. lið. mbl.is/Hákon

Karlmaður hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum. Skömmu áður en brotin áttu sér stað hafði maðurinn þegar verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir sambærilegt brot.

Maðurinn var ákærður í þremur ákæruliðum. Var hann sakfelldur í 1. og 3. ákærulið en sönnunargögn skorti til að sakfella hann í 2. lið.

Sunnudaginn 17. janúar 2021 áreitti hann 13 ára gamla stúlku kynferðislega. Karlmaðurinn sagði við stúlkuna að hún væri falleg, tók í hönd hennar, kyssti hönd hennar og kyssti síðan á muninn og snerti og nuddaði kynfærasvæði hennar utanklæða.

Eftir að stúlkan komst undan spurði hann hana hvort þau ættu að gera „þetta“ á eftir. Var maðurinn sakfelldur í þessum ákærulið.

Greip í kynfæri stúlkunnar

Í 2. og 3. ákærulið var maðurinn ákærður fyrir kynferðisbrot annars vegar inni í verslun við Austurstræti og hins vegar fyrir utan umrædda verslun. Varðaði þetta tvær stúlkur sem voru hluti af erlendum hóp í skólaferðalagi.

Í 2. ákærulið á hann að hafa kreist rass stúlku sem sat á bekk fyrir utan verslunina. Á upptökum er ekki hægt að staðfesta að hann hafi kreist á henni rassinn, þar sem aðrir einstaklingar byrgja sýn, en þó sést að hann hallaði sér að henni. Hann var ekki sakfelldur í 2. ákærulið vegna skorts á sönnunargögnum. 

„Hann gengur síðan beint að versluninni og fer inn um dyr verslunarinnar. Megi þar sjá að ákærði er með typpið út úr buxnaklaufinni þegar hann gengur að versluninni en rétt áður en hann gekk þar inn hafi hann sett typpið í buxurnar,“ segir í dómnum. 

Gekk maðurinn svo upp að annarri stúlku og greip í kynfæri hennar utanklæða. Það er 3. ákæruliður og var hann sakfelldur í þeim lið.

Báðar yngri en 15 ára

Stúlkurnar fengu ekki leyfi foreldra sinna til að bera vitni fyrir dóm, en þær eru báðar yngri en 15 ára og búa erlendis. Myndskeið úr eftirlitsmyndavél sýnir þegar maðurinn kemur að brotaþola inni í versluninni og setur hönd sína á kynfærasvæði hennar.

Eins og fyrr segir var hann ekki sakfelldur í 2. ákærulið. Héraðsdómur taldi þó vitnisburð stúlkunnar fyrir lögreglu vera trúverðugan, og vitnisburð karlmannsins ótrúverðugan.

En vegna þess að myndbandsupptaka gat ekki sýnt fram á þetta atvik með beinum hætti - og þar sem hún gat ekki borið vitni - var hann ekki sakfelldur.

Er honum gert að greiða samtals 3.150.086 krónur í miskabætur, lögmannskostnað og annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert