Íbúum hefur fjölgað um 33% á rúmu ári

Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað um rúm 40% á síðustu …
Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað um rúm 40% á síðustu mánuðum. mbl.is/Árni Sæberg

Vorfundur Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum er haldinn í dag. Á honum verður farið yfir stöðuna í sveitarfélögunum suður með sjó, meðal annars með tilliti til áhrifa eldgosanna á íbúa og byggðarlögin. Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, flytur erindi á fundinum og þar mun hann greina frá fordæmalausri fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og áskorunum sem fylgja; fjárhagslegum og félagslegum.

„Það hafa á þriðja hundrað manns flutt hingað á síðustu vikum. Íbúafjölgunin er 33% á rétt rúmlega ári, frá ársbyrjun 2023 til mars á þessu ári, og stefnir í að hún verði enn meiri enda er enn verið að úthluta íbúðum á vegum leigufélagsins Bríetar og íbúðafélagsins Bjargs,“ segir bæjarstjórinn í samtali við Morgunblaðið.

Grindvíkingar í meirihluta

Mikill meirihluti nýju íbúanna eru Grindvíkingar að sögn Gunnars Axels. Þeir hafa bæði fest kaup á fasteignum og fengið íbúðir á vegum áðurnefndra félaga. Erfitt er að segja nákvæmlega til um fjölda nýju íbúanna enda hefur Grindvíkingum verið gefinn kostur á að skrá aðsetur sitt tímabundið í ljósi aðstæðna. Kveður Gunnar Axel að fjöldinn sé líklega vanmetinn enda sé allur gangur á því hvort fólk skráir slíkt aðsetur eða ekki.

„Opinber fjöldi hér er 1.599 sem hafa skráð lögheimili og 1.788 með þeim sem hafa skráð aðsetur hér. Sennilega er sú tala nálægt 1.900,“ segir hann. „Þetta er auðvitað gríðarleg fjölgun sem við áttum eðlilega ekki von á. Við reiknuðum ekki með svo hraðri fjölgun að allt myndi fyllast í ársbyrjun. Okkar ýktustu spár hafa raungerst á fyrstu dögum ársins.“

Áhrif á alla innviði

Gunnar segir að þessar tölur segi aðeins hálfa söguna því þessi hraða fjölgun hafi mikil áhrif á alla innviði. „Það er komið að þolmörkum hjá okkur, sérstaklega í skólunum. Börnum á grunnskólaaldri hefur fjölgað um rúm 40%. Við erum að gera allt sem við getum til að tryggja þessu fólki viðeigandi þjónustu en við getum ekki gert meira en innviðir og fjárhagur sveitarfélagsins leyfir.“

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert