Katrín afsalar sér biðlaunum fram á kjördag

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur afsalað sér biðlaunum fram til 1. júní þegar forsetakosningar verða haldnar.

Katrín segir að hún hafi sest yfir málið eftir að hún ákvað að bjóða sig fram og hafi í samvinnu við forsætisráðuneytið fundið þessa lausn á málinu. 

„Ég tók þetta til skoðunar eftir að ég tilkynnti mitt framboð og kynnti mér hvernig þessi mál virka og ræddi við ráðuneytið. Niðurstaðan var sú að ég myndi afsala mér réttindum til 1. júní,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Getur ekki sótt launin síðar 

Katrín hefur rétt á sex mánaða biðlaunum. Spurð hvort henni hafi verið heimilt að afsala sér réttindum sem opinber starfsmaður þá segir hún að hún hafi fengið heimild til þess samkvæmt minnisblaði forsætisráðuneytisins. 

Enn fremur kveðst hún ekki geta frestað biðlaununum þannig að hún geti sótt þau síðar. 

„Ég ákvað að gera þetta svona þegar þessi umræða um aðstöðumun kom upp. Hún er auðvitað margbrotin en mér fannst þetta hreinlegast,“ segir Katrín.

Sérðu fyrir þér að kosningabaráttan verði kostnaðarsöm?

„Það má safna peningum eftir vissum reglum og við fylgjum þeim eins og aðrir frambjóðendur,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert