Ný ríkisstjórn tifandi tímasprengja og tryllt tilþrif Brynjars

Hanna Katrín Friðriksson, Elliði Vignisson, Brynjar Níelsson og Kolbrún Bergþórsdóttir …
Hanna Katrín Friðriksson, Elliði Vignisson, Brynjar Níelsson og Kolbrún Bergþórsdóttir eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum. Samsett mynd

Staðan í pólitíkinni og nýmyndað stjórnarsamstarf var til umræðu í nýjasta þætti af Spursmálum sem sýndur var í beinu streymi fyrr í dag. Þau Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, mættu í settið og ræddu nýtt ríkisstjórnarsamstarf sem hlotið hefur töluverða gagnrýni síðustu daga.

Mikið fjör færðist í leikana við yfirferð á helstu fréttum vikunnar. Brynjar Níelsson, lögmaður og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í settið ásamt Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamanni og bókagagnrýnanda til að rýna fyrirferðarmestu fréttir í liðinni viku.

Upptöku af þættinum má nálgast í spilaranum hér að neðan, á Spotify eða Youtube og er hún öllum aðgengileg.

Umdeilt stjórnarsamstarf

Nýtt stjórnarsamstarf hefur verið í hámæli síðustu daga. Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var mynduð með hraði eftir að lausnarbeiðni Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra var samþykkt.

Ákvörðun hennar um að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands reisti áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi skorður, enda um fordæmalaust uppátæki að ræða.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir óánægju sinni með nýtt stjórnarsamstarf og telja margir að það verði ekki langlíft.

Brynjar bregður sér í hlutverk Gísla Marteins

Brynjar Níelsson hefur einnig verið á allra vörum í vikunni sem senn er á enda. Er hann orðaður við að leysa sjónvarpsmanninn Gísla Martein Baldursson af hólmi sem lýsandi í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fer í Malmö í maí.

Í Spursmálum brá Brynjar sér í hlutverk Gísla Marteins og þreytti frumraun sína sem Eurovision-lýsandi með glæsibrag.

Nú er það í höndum þjóðarinnar að skora á Ríkisútvarpið að fá Brynjar til að lýsa keppninni í ár og vera eins konar sameiningartákn alþýðunnar.

Sjálfur sagðist Brynjar bíða eftir símtalinu frá Stefáni Eiríkssyni, útvarpsstjóra.

Fylgstu með fjörugri og afdráttarlausri umræðu í Spursmálum alla föstudaga kl. 14 hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert