„Við í Bankasýslunni grunlaus“

Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, fer yfir sjónarmið Bankasýslunnar í …
Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, fer yfir sjónarmið Bankasýslunnar í TM-málinu, mbl.is/Kristinn

„Við erum fyrst að bregðast við greinargerð vegna Landsbankans, í öðru lagi erum við að koma með tilnefningarnar [í nýtt bankaráð] og kynna þær og að lokum að óska eftir fundi með nýju bankaráði,“ segir Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, í samtali við mbl.is um nýtt bankaráð Landsbankans í kjölfar skuldbindandi tilboðs í allt hlutafé TM trygginga sem gekk gegn eigendastefnu ríkisins.

Segir Tryggvi fyrsta mál á dagskrá nýs bankaráðs vera að leggja nýtt mat á framangreint tilboð með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa og leggja mat á þá kosti sem bankinn hafi í stöðunni.

„Það liggur alveg klárt fyrir að það er ákvörðunin 15. mars sem stingur í stúf. Þar er bankaráð að koma með skuldbindandi tilboð sem Kvika [seljandi TM] tekur og þegar þetta er gert erum við í Bankasýslunni grunlaus að því leyti að við erum ekki upplýst um þetta með formlegum hætti, frumkvæðisskyldan þar er á bankaráðinu,“ segir stjórnarformaðurinn.

Ráðherra hafði lýst andstöðu sinni

Upplýsir hann að gangur málsins samkvæmt bókinni ætti að vera sá að fjármálafyrirtæki, í þessu tilfelli Landsbankinn, upplýsi Bankasýsluna sem svo upplýsi ráðherra. Enga slíka tilkynningu, hvorki formlega né óformlega, segir Tryggvi hafa borist Bankasýslunni.

Hins vegar hafi bankaráðið tilkynnt um það í júlí í fyrra að áhugi væri á kaupum á TM innan Landsbankans og hafi þeirri tilkynningu fylgt loforð um að Bankasýslunni yrði haldið upplýstri.

„Ekkert slíkt var gert núna og í öðru lagi er þetta gert eftir að mánuði áður hafði ráðherra lýst yfir andstöðu sinni auk þess sem þetta er í andstöðu við eigendastefnu ríkisins og sáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að draga úr hlutdeild á fjármálamarkaði og nýta það til að byggja upp innviði,“ heldur Tryggvi áfram.

Í þriðja lagi hafi tilboðið nú verið gert án fyrirvara um samþykki hluthafa, en annað hafi verið uppi á teningnum þegar Íslandsbanki gerði sitt kauptilboð. „Við spurðum á nýlegum aðalfundi Íslandsbanka um það hvort slíkur fyrirvari hafi verið gerður og það var gert,“ segir hann.

„Viljum ekki gera þeim upp slíkt“

Málið sé því í raun einfalt frá sjónarhóli Tryggva en þýði um leið að Bankasýslan telji nauðsynlegt að fá nýtt bankaráð að borðinu sem fari yfir málið og hvaða valkosti bankinn hafi eins og málavextir séu nú.

„Þó er vert að hafa í huga að það voru þó fyrirvarar um samþykki Fjármálaeftirlits og Samkeppniseftirlits og væntanlega er það meira síðari fyrirvarinn sem hér reynir á og reikna má með að það líði einhverjir mánuðir þar til Samkeppniseftirlitið samþykkir þessi kaup,“ segir Tryggvi.

Þarna virðist töluverð handvömm hafa átt sér stað hjá bankaráðinu en varla hefur ásetningur þess staðið til að lauma kaupunum fram hjá ykkur?

„Nei, við viljum ekki gera þeim upp slíkt en þau velja samt þá aðferð – að borga þetta út með einhverjum peningum og ætla síðan að gefa út víkjandi lán í framhaldinu – að fara leið sem krefst ekki hlutafjáraukningar og samþykkis eigenda en þau vísa meira til þess að þetta sé innan þeirra tíu prósenta marka af stærð bankans að þeim hafi verið heimilt að gera þetta. En þetta er meiri háttar samningur og tekur að okkar mati af arðgreiðslumöguleikum fyrir ríkið sem heldur betur er þörf á. Þetta þýðir líka að eiginfjárstaðan verður býsna lág þegar búið er að fullnusta þessi kaup,“ svarar Tryggvi.

Ekki frekara högg á orðspor bankans

Hann vísar einnig í svar Bankasýslunnar til ráðherra í kjölfar fyrirspurnar hans um valkosti í málinu og tekur fram að Bankasýslan hafi engar forsendur til að meta hvaða kostur sé þar fýsilegastur fyrir bankann, það mat verði í höndum nýs bankaráðs.

„Og við ætlum ekki að fara fram með þeim hætti að það verði eitthvert frekara högg á orðspor Landsbankans en slíkt gæti gerst ef menn færu að tala um riftun á þessu stigi. Það verður bara að vera bankaráðið sem tekur ákvörðun þegar virkilega er búið að fara yfir þetta og þá náttúrulega í samræmi við eigendastefnuna og í samræmi við að láta okkur vita og við munum þá láta ráðherra vita. Þannig er gangurinn og á að vera,“ segir Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert