Húmorinn bjargaði lífi mínu

Leikarinn Gunnar Smári Jóhannesson missti ungur báða foreldra sína. Hann …
Leikarinn Gunnar Smári Jóhannesson missti ungur báða foreldra sína. Hann segir húmor hafa bjargað lífi sínu. mbl.is/Ásdís

Himinninn yfir Tjörninni í Reykjavík er einkennilega grár þennan vormorgun í borginni, en vorið stendur þó eitthvað á sér því lítil snjókorn svífa til jarðar. ​Í Tjarnarbíói bíður mín leikarinn Gunnar Smári Jóhannesson, ungur maður sem á sér mikla sögu.

Í litlu sminkherbergi baksviðs finnum við næði til að ræða saman um lífið og listina sem oft tvinnast saman, en Gunnar er einmitt um þessar mundir að sýna verk sitt Félagsskapur með sjálfum mér, sem hann byggir á sinni sögu.

Gunnar, sem er rúmlega þrítugur, hefur upplifað meiri harm á sinni ævi en margir sem náð hafa háum aldri. Hann missti báða foreldra sína þegar hann var á barnsaldri og hafa áföllin að vonum litað allt hans líf. Eftir að hafa misst fótanna um hríð hefur Gunnar fundið sinn tilgang í lífinu og nýtir reynslu sína til að skapa list. Hann notar húmorinn óspart, enda segir hann alveg klárt mál að í harminum búi mikill húmor.

Hugsunarhátturinn var eitrið

Reiði hafði ekki verið tilfinning sem Gunnar hafði fundið fyrir eftir öll áföllin en um 23 ára aldur breyttist það.

„Yfir mig kemur rosaleg heift og reiði og ég vissi ekkert hvert ég ætti að beina henni. Ég leitaði í eitthvað til að sefa reiðina og fer í áfengi sem gerir allt verra. Ég tók enga ábyrgð á eigin lífi og var skítsama um allt. Ég fór að lesa níhílistabækur og fannst ekkert skipta máli. Ég fór að lifa lífinu eftir því að ekkert skipti máli,“ segir Gunnar.

„Ég varð eins og túramaður og drakk kannski viðstöðulaust í tvo mánuði og svo ekkert í tvo mánuði, en hugsunarhátturinn og áfengið var eitrið. Ég fór í sjálfsvorkunn og fannst að lífið skuldaði mér. Ég átti í alls konar ástarsamböndum, var óheiðarlegur og haldinn sjálfseyðingarhvöt,“ segir Gunnar, en á þessum tíma var hann nemandi í leiklist í LHÍ.

„Eftir útskrift fékk ég strax vinnu í Þjóðleikhúsinu og fannst það bara sjálfsagt. Þjóðleikhúsið mótaði mig mikið og ég lærði mikið af öllum þessum góðu leikurum sem þar starfa. Vinnan gekk bara vel og ég lék í Ástu, Kardemommubænum og Jólaboðinu, en mér leið alltaf illa á sviði,“ segir hann og segir að þessi sjálfseyðandi hegðun hafi haldið áfram með hléum.

Blóðslóðin lá inn í herbergi

Botninum náði Gunnar eina nóttina þegar hann datt á höfuðið og var bjargað fyrir tilviljun.

„Ég var ekki búinn að sofa í fjóra daga og hafði ekkert borðað og drakk ofan í það. Ég man ekkert eftir þessu en nágrannar mínir muna vel eftir þessu. Einn nágranni minn sá blóð í stigaganginum og slóðin lá inn í herbergið mitt. Þar lá ég í rúminu og blóð lak viðstöðulaust úr höfðinu mínu. Nágranninn hringir á sjúkrabíl, en það var blóð út um allt,“ segir Gunnar.

„Læknirinn sagði að ef nágranni minn hefði ekki komið að mér hefði ég bara sofnað og ekki vaknað aftur. Mér hefði blætt út. Það þurfti að sauma tólf spor í ennið. Ég skammast mín hræðilega fyrir þetta tímabil því ég var þess valdandi að þetta kom fyrir sjálfan mig. Það var alls konar fólk í mínu lífi sem hafði gefist upp á mér,“ segir hann og segir vont að vita að hann hafi brugðist fólki.

„Mig langar að vera hluti af samfélaginu og í grunninn er ég ekki þessi níhílisti sem ég reyndi að vera. Mér finnst lífið fallegt og það skuldar mér ekki neitt. Það fer upp og niður og ég vil vera sá sem fólk getur leitað til ef það fer niður. Ég ætla aldrei að dæma nokkurn mann,“ segir Gunnar og segist nú hættur að vera fórnarlamb.

Að finna húmor í harminum

Gunnar fann sína leið til baka með því að semja einleikinn Félagsskapur með sjálfum mér sem byggist á hans eigin lífsins harmi og kómískum hliðum hans. Sýningar eru nú í Tjarnarbíói og vonar Gunnar að sýningar muni halda áfram í maí og jafnvel aftur í haust.

„Systkini mín kenndu mér að finna húmorinn í harminum. Einn daginn átti ég mömmu og næsta dag var hún öll í slöngum og snúrum á spítala. Það er absúrd. Auðvitað á maður ekki að setja á sig grímu og fara í gegnum lífið eins og það sé grín. En grín er svo sterkt meðal þegar það er notað rétt. Ef það er einhver sem hefur húmor fyrir sjálfum sér og kringumstæðum sínum er það ég. Húmorinn bjargaði lífi mínu. Þegar maður getur ekki grátið er svo gott að hlæja.“

Ítarlegt viðtal er við Gunnar Smára í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert