Lægð nálgast með vaxandi sunnanátt og éljum

Úrkomuspá Veðurstofunnar klukkan 8 í fyrramálið.
Úrkomuspá Veðurstofunnar klukkan 8 í fyrramálið. Kort/Veðurstofa Íslands

Hæðarhryggur mjakast austur yfir landið í dag. Því veður vindur fremur hægur og það léttir víða til. Þó verða einhver él viðvarandi á Suðausturlandi.

Frost á bilinu 0 til 9 stig, en líklega frostlaust yfir hádaginn sunnanlands. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands í morgunsárið.

Lægð myndast á Grænlandshafi síðdegis og í kvöld mun hún nálgast vesturströnd landsins með vaxandi sunnanátt og éljum.

Spálíkön ráða illa við smálægðir

Lægðin verður skammt sunnan landsins á morgun og drag frá henni teygist til norðvesturs meðfram vesturströndinni.

Austlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s og snjókoma eða slydda með köflum. Lengst af þurrt á Norðurlandi.

„Spálíkön ráða oft illa við svona smálægðir, og talsverð óvissa er varðandi hvort og hve mikið snjóar á hverjum stað. Heldur hlýnandi veður. Seint á morgun bætir svo í vind á norðvestur hluta landsins,“ segir í hugleiðingunum.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert