Þjónusta Póstsins „aldrei verið hraðari“

Ósk Heiða Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Póstinum.
Ósk Heiða Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptavina hjá Póstinum. Ljósmynd/Aðsend

Pósturinn segir þjónustu sína aldrei hafa verið hraðari en nú. Þetta er haft eftir Ósk Heiðu Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra viðskiptavina hjá Póstinum, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Núna í mars voru t.d. 95% sendinga erlendis frá komnar í póstbox á höfuðborgarsvæðinu daginn eftir að vinnsla þeirra hófst en 72% þar af sama dag. Þetta er mikil bæting frá því í ársbyrjun í fyrra en þá voru það ekki nema 31% erlendra sendinga sem fóru samdægurs í póstbox,” er haft á eftir framkvæmdastjóranum í tilkynningunni.

Vinnsla sendinga hefst í síðasta lagi næsta dag eftir að sendingin lendir á Keflavíkurflugvelli, segir enn fremur í tilkynningunni.

Sjálfvirknivæðingin spilar stórt hlutverk

„Ástæðan fyrir því að hraðinn hefur aukist margfalt á undanförnum misserum er m.a. sjálfvirknivæðingin,“ er haft á eftir Ósk í tilkynningunni. „Þegar einhver pantar vöru í erlendri netverslun berast upplýsingarnar um leið í kerfið okkar í gegnum póstfyrirtækið sem við erum í samstarfi við. Þar af leiðandi getum við afgreitt vöruna hraðar í hendur viðskiptavina.“

Búinn var til sérstakur hugbúnaður hjá Póstinum sem gerir kerfunum kleift að lesa úr rafrænum skeytum, þannig að hægt sé að tollafgreiða sjálfvirkt fyrirfram.

Senda til 192 landa 

Dreifikerfi Póstsins teygir sig um víða veröld og sendir Pósturinn til 192 landa. 

„Nú hefur orðið talsverð aukning í innflutningi hjá okkur og við sjáum fram á áframhaldandi aukningu þar. Sambærileg þróun hefur átt sér stað í nágrannalöndum og víðar í Evrópu, líklega er það hluti af alþjóðavæðingunni og aukinni netverslun um allan heim. Flestar sendingar berast frá Hollandi. En stór hluti þeirra eru vörur pantaðar frá Kína sem millilenda í Hollandi. Þau lönd sem á eftir koma eru Singapúr, Þýskaland, Litháen, Bretland og Bandaríkin,” er haft á eftir Ósk.

Hún segir einnig að viðskiptavinir geri kröfu um að pakkarnir berist þeim hratt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert