Sam­ein­ar skyr, súr­deigs­mæður og þurrklósett

Áki Guðni Karlsson, stundakennari og doktorsnemi í þjóðfræði, var verkefnastjóri …
Áki Guðni Karlsson, stundakennari og doktorsnemi í þjóðfræði, var verkefnastjóri ráðstefnunnar Matur, mold og menning sem fram fór í Þjóðminjasafninu fyrir helgi. Ljósmynd/Aðsend

„Hvað er það sem sameinar skyr, súrdeigsmæður, bokashi-fötur og þurrklósett?“ var upphafsstefið í kynningartexta tveggja daga ráðstefnu á vegum öndvegisverkefnisins „Samlífi manna og örvera í daglega lífinu“ í Þjóðminjasafninu sem fram fór nú fyrir helgina og var þverfagleg svo um munar.

Svo ólík fræðasvið Háskóla Íslands sem matvæla- og næringarfræði, þjóðfræði og mannfræði komu að ráðstefnunni sem bar titilinn „Matur, mold og menning“ en þá eru fleiri greinar ótaldar, svo sem félagsfræði, heilsuhugvísindi, hönnun og sviðslistir.

Glóbrystingur litast um í safnkassa þrjú. Örverur eru alls staðar …
Glóbrystingur litast um í safnkassa þrjú. Örverur eru alls staðar og hluti af öllu okkar lífi, þarmaflóru manna og dýra svo eitt af mýmörgum dæmum sé tekið. Ljósmynd/Aðsend

„Ráðstefnan fjallaði um samlífi fólks og örvera í daglega lífinu og hvernig við nýtum okkur örverur í daglega lífinu, á fimmtudaginn var til dæmis talað um matargerð og örverur, skyr, súrdeigsbakstur og íslenska hákarlinn, hvað gerist í hákarlinum þegar hann er kæstur sem hefur ekki verið kortlagt nákvæmlega áður,“ segir Áki Guðni Karlsson frá, verkefnastjóri ráðstefnunnar og auk þess doktorsnemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og stundakennari í fræðigreininni.

Þarmaflóra frá vöggu til grafar

Þá var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur síðdegis þennan fyrri dag ráðstefnunnar heldur þarmaflóra mannskepnunnar gerð að yrkisefni og mikilvægi hennar fyrir líkamlega heilsu okkar mannfólksins og ekki síður geðheilsuna.

„Samsetning þarmaflórunnar var tíunduð, það er að segja hvernig hún er í nýfæddu barni og hvernig hún breytist eftir því sem við eldumst,“ útskýrir doktorsneminn og segir í framhaldinu frá því að síðari dagur ráðstefnunnar hafi meðal annars verið helgaður örverum í umhverfinu og hafi Gísli Pálsson mannfræðiprófessor og bandaríski prófessorinn Amber Benezra þar verið meðal fyrirlesara en erlendir gestir voru þó nokkrir að sögn Áka.

Á fimmtudaginn var talað um matargerð og örverur, skyr, súrdeigsbakstur …
Á fimmtudaginn var talað um matargerð og örverur, skyr, súrdeigsbakstur og íslenska hákarlinn, hvað gerist þegar hann er kæstur. Ljósmynd/Aðsend

„Undirstaða þessa alls er þessi nýja tækni til sameindagreiningar sem við sáum í heimsfaraldrinum, þessar PCR-greiningar sem eru að birta okkur nýja sýn á heiminn sem við sáum ekki áður, við erum að sjá miklu meiri fjölbreytni í lífríkinu með þessari nýju tækni, hluti sem við áttuðum okkur ekki á áður,“ útskýrir Áki.

Heildarsamhengið mikilvægast

Spurningin sé hvernig þessi nýja sýn breyti hugmyndum okkar um heilsu og velferð. „Til dæmis höfum við miklar áhyggjur af þessum sjúkdómum sem geta borist úr dýrum í menn, þetta hefur kallað á nýjar nálganir og að hlutirnir séu skoðaðir í heildarsamhengi en ekki hólfaðir niður,“ segir Áki og bendir á að ráðstefnan hafi verið haldin í samstarfi við Matís sem matvæla- og næringarfræðideildin sé jafnan í miklu samneyti við.

Hann bendir á að ráðstefnan sé einnig nátengd rannsóknarverkefninu „Samlífi manna og örvera í daglega lífinu“ sem staðið hefur í þrjú ár. „Niðurstöður munu birtast úr því á næstunni auk heimildarmyndar og sýningar á Hönnunarsafni Íslands þannig að það er ýmislegt að gerast út frá niðurstöðum rannsóknarinnar.“

Ýmissa grasa kenndi í safnkössunum og var innihaldið af ýmsu …
Ýmissa grasa kenndi í safnkössunum og var innihaldið af ýmsu tagi. Ljósmynd/Aðsend

Áki er spurður hvað stór þverfagleg ráðstefna á borð við þessa skilji eftir sig, eða hvað vonast sé til að hún skilji eftir sig þegar upp er staðið.

„Fyrir þá sem hafa áhuga á þessu ætti þetta að vera mjög áhugaverð ráðstefna, á laugardaginn förum við með alla gestina í „workshop“ þar sem stefnan er að fá umræðu um niðurstöðu rannsóknarinnar okkar og vonandi fáum við út úr því eitthvert meira samstarf í framtíðinni, við sjáum jafnvel fyrir okkur að geta sótt saman um styrki,“ svarar Áki og bætir því við að samstarf við nokkra háskóla í Skandinavíu sé þegar komið á.

Svo sem nefnt var í upphafi voru fyrirlesarar ráðstefnunnar fulltrúar fjölda ólíkra þekkingarsviða en eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á mikilvægi samlífis fólks og örvera fyrir umhverfi, heilsu, félagsleg tengsl og menningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert