Skemmdarverk framið: „Þetta er bara glatað“

Rifið var upp úr beðunum 65 plöntur.
Rifið var upp úr beðunum 65 plöntur. Samsett mynd

Á sjöunda tug plantna voru rifnar upp úr beðum á Eiðistorgi í gær. Ekki er vitað hver ber ábyrgð á skemmdarverkinu en bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar tók málin í eigin hendur og gróðursetti þær aftur í morgun.

„Djöfulsins dónaskapur var þetta - algjörlega óþarft. 65 glænýjar plöntur sem við vorum nýbúin að planta,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, í samtali við mbl.is.

Bæjarstjórinn var mættur klukkan 10 í morgun og var að …
Bæjarstjórinn var mættur klukkan 10 í morgun og var að til klukkan 13. Ljósmynd/Facebook

Skemmdarverkið var framið seinnipartinn í gær og kveðst Þór telja mögulegt að um prakkarastrik ungs fólks sé að ræða.

„En þetta er bara glatað. Við erum nýbúin að gera upp torgið fyrir fullt af peningum og gera það rosa flott,“ segir Þór.

Ljósmynd/Aðsend

Allir Seltirningar á vakt

Eins og fyrr segir þá var það Þór sem gekk í verkið við að gróðursetja plönturnar á ný. Hann vonast nú til þess að plönturnar lifi þetta af en hann vökvaði þær einnig.

„Þetta er bara akút mál og ég vil bjarga verðmætum,“ segir hann.

Ljósmynd/Aðsend

Bendir hann á að plönturnar hafi verið gróðursettar fyrir opinbera heimsókn forseta Íslands í tilefni af 50 ára afmæli bæjarins. Málið hefur verið tilkynnt lögreglu og farið verður yfir fyrirliggjandi myndefni.

„Við þurfum að koma í veg fyrir þetta. Allir Seltirningar, hver og einn, er á vakt að passa þetta – ekki bara ég.“

Svona litu beðin út eftir að Þór hafði gróðursett plönturnar …
Svona litu beðin út eftir að Þór hafði gróðursett plönturnar á ný. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert