„Ég læt ekki skoðanakannanir ráða för“

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi kveðst hafa fengið gríðarlega góðar móttökur og …
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi kveðst hafa fengið gríðarlega góðar móttökur og hlakkar til að eiga samtöl um framtíðina. mbl.is/Óttar

„Ég læt ekki skoðanakannanir ráða för heldur ætla bara að hitta fólkið og held kannski að þetta byrji ekki í reynd fyrr en við meðframbjóðendur fáum tækifæri til að taka samtal,“ segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi innt eftir viðbrögðum við nýjustu könnun Prósent fyri Morgunblaðið.

Eins og fram kom í morgun mældist Halla með um 4,3 prósent fylgi og er því með fimmta mesta fylgið af tólf frambjóðendum. Baldur Þórhallsson mældist með mesta fylgið eða um 25,8 prósent.

Lætur ekki deigan síga 

Í samtali við mbl.is kveðst Halla spennt fyrir komandi tímum og segist hlakka til að eiga samtöl við meðframbjóðendur sína um framtíðina. Eins og er sé hún þó á ferð um landið til að eiga í samtölum við landsmenn í aðdraganda kosninganna.

Var Halla einmitt á ferð og flugi er blaðamaður náði tali af henni í dag en hún heimsækir leikskóla á Akranesi til að ræða þar við starfsfólk um leikskólastarf á Skaganum í dag. Verður einnig haldinn opinn fundur klukkan 18 í kvöld. 

Kveðst Halla hafa fengið gríðarlega góðar móttökur í kjölfar þess að kosningaskrifstofa hennar opnaði á laugardaginn og að hún finni fyrir miklum áhuga meðal fólks fyrir samtali um framtíðina. Hún láti því ekki deigan síga þrátt fyrir nýjustu tölur enda talsvert eftir af baráttunni.

Þurfum nýja sýn á árangur

„Ótrúlega skemmtilegur morgun, þau eru að gera mjög metnaðarfulla hluti hér eins og að vinna með heimsmarkmiðin,“ segir Halla og kveðst einmitt vilja stuðla að því að leikskólastarf á landinu taki mið af heimsmarkmiðum sem hún hafi sjálf unnið mikið með í störfum sínum hjá B-Team-samtökunum.

„Draumurinn minn væri að við værum að vinna með heimsmarkmiðin á öllu leikskólum, á öllum vinnustöðum og í samfélaginu öllu,“ segir Halla. 

„Því að ég hef lengi talað fyrir því að við þurfum nýja sýn á árangur það er ekki hægt að kalla það árangur lengur bara að hagnast eða keyra áfram hagvöxt við verðum að gera það á grunni þess að við séum að sinna samfélaginu og umhverfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert