Um níutíu skjálftar í hrinunni

Frá eldgosinu við Sundhnúkagíga. Hrina smáskjálfta hófst við Lágafell eftir …
Frá eldgosinu við Sundhnúkagíga. Hrina smáskjálfta hófst við Lágafell eftir hádegi í gær. Hörður Kristleifsson

Ekki hefur mælst skjálftavirkni við Lágafell, skammt norðvestur af Grindavík, það sem af er þessum degi frá miðnætti.

Hrina smáskjálfta hófst þar eftir hádegi í gær og mældust um níutíu skjálftar. Voru þeir allir undir 1 að stærð og flestir á um 2-4 kílómetra dýpi.

Jarðvísindamenn Veðurstofunnar segja hrinuna líklega afleiðingu spennubreytinga í jarðskorpunni, vegna áframhaldandi landriss í Svartsengi.

Með tilkynningu frá Veðurstofunni fylgir samsett graf, sem sjá má að ofan, sem sýnir staðsetningu skjálftanna á korti og dýpt þeirra.

Efst til hægri er sýnd stærð skjálfta frá hádegi í gær þar til í gærkvöldi. Þar fyrir neðan er uppsafnaður fjöldi skjálfta og neðst fjöldi skjálfta á klukkustund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert