Fagnar áhuga á Höfðanum

Drög að fjölbýlishúsum á einni lóðinni á Ártúnshöfða. Þorpið hefur …
Drög að fjölbýlishúsum á einni lóðinni á Ártúnshöfða. Þorpið hefur selt frá sér byggingarlóðina. Teikning/JVST arkitektar/Þorpið vistfélag

Einar Þorsteinsson borgarstjóri telur eðlilegt að byggingarheimildir í borginni verði tímabundnar.

Tilefnið er sala Þorpsins 6 ehf., dótturfélags Þorpsins vistfélags, á byggingarheimildum á Ártúnshöfða. Forsaga málsins er sú að Árland, félag tengt Gamma, undirritaði samninga við borgina sumarið 2019 um uppbyggingu á svæðinu. Árland seldi síðan 80 þúsund fermetra af byggingarrétti til Þorpsins á 7,4 milljarða í lok októbermánaðar 2021. Nú, tveimur og hálfu ári síðar, hefur Þorpið selt þessi réttindi til Skugga 4 ehf. á 11 milljarða.

Áslaug Guðrúnardóttir, stjórnarformaður Þorpsins vistfélags, harmaði söluna í samtali við Morgunblaðið enda myndi félagið ekki geta fylgt eftir félagslegum áherslum sínum við uppbyggingu í hverfinu. Þorpið hafi haft fleiri áherslur að leiðarljósi en hrein hagnaðarsjónarmið.

Fulltrúi Skugga tók fyrir helgi boði um að koma í viðtal vegna viðskiptanna en síðan heyrðist ekki meira frá honum.

Hefur reynslu af því að byggja

Þegar lóðir ganga kaupum og sölum myndast að óbreyttu álagning á óbyggðar íbúðir sem fjárfestar þurfa að hafa til að viðskiptin gangi upp. Hver er þín skoðun, borgarstjóri, á að lóðarhafar segi sig á þennan hátt frá verkefnum og innheimti í staðinn skammtímahagnað?

„Mér finnst það skipta mestu máli að þeir sem kaupa hjá okkur lóðir byggi á þeim hratt og örugglega falleg og góð hverfi fyrir íbúa í borginni. Það geta verið gild sjónarmið fyrir því að svona lóðir gangi kaupum og sölum. Sumir eru í því að kaupa og þróa lóðir og setja mikla fjármuni í þróun deiliskipulags, hönnun og fleira og svo skapast þær aðstæður að þeir sjái frekar hagsmuni sína í því fólgna að selja þær frá sér. Ég þekki ekki til sjónarmiðanna að baki því að þessi lóð var seld. Þarna er hins vegar verktaki að kaupa lóðir sem hefur byggt talsvert í borginni og ef þetta þýðir að þarna fari uppbygging hratt og örugglega af stað getur það verið mjög jákvætt.

Hyggst ræða við lóðarhafa

Ég hyggst reyndar setjast niður með þessum aðilum fljótlega og heyra í þeim varðandi þeirra áform. Það er kannski ágætis vísbending um áhuga markaðarins á Ártúnshöfðanum að verið sé að greiða gott verð fyrir uppbyggingarheimildirnar og það gleður mig að sjá að þarna séu komnir aðilar sem eru tilbúnir að veðja á Höfðann.“

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert