Fjórir sakfelldir: Gert að greiða 170 milljónir

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt fjóra karlmenn fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri byggingafélaga. Hluti dómanna eru skilorðsbundnir. Mönnunum er einnig gert að greiða samtals 170 milljónir kr. í sekt til ríkissjóðs. 

Einn maður var dæmdur í 12 mánaða fangelsi, annar hlaut 12 mánaða skilorðsbundinn dóm, sá þriðji hlaut einnig 12 mánaða dóm, þar af níu mánuði skilorðsbundna, og sá fjórði hlaut sjö mánaða skilorðsbundinn dóm.

Héraðssaksóknari ákærði mennina, þá Armando Luis Rodriguez, Theódór Heiðar Þorleifsson, Lúther Ólason, Hermann Ragnarsson, og fimmta manninn, sem er ónafngreindur, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald. Þá var sá síðastnefndi ákærður sérstaklega fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali. Tekið er fram að hann hafi látist eftir að málið hafði verið þingfest. 

Lúther hlaut 12 mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða 55 milljónir króna í sekt. Hermann hlaut sjö mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða 15 milljónir í sekt. Armando hlaut 12 mánaða dóm óskilorðsbundið og var gert að greiða 50 milljóna kr. sekt. Theódór Heiðar hlaut 12 mánaða dóm, þar af níu mánuði skilorðsbundið, og var einnig gert að greiða 50 milljónir í sekt. 

Brot gegn skattalögum og lögum um bókhald

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 21. mars en var birtur í gær, að Armando og Theódór hafi verið gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald í rekstri félagsins Hornbjarg ehf. Theódór var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og Armando varastjórnarmaður og daglegur stjórnandi félagsins. Segir að þeir hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna neinna uppgjörstímabila rekstrarárin 2017 og 2018. Svo og með því að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabila rekstrarárið 2018. Jafnframt með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil, í samræmi við lög um virðisaukaskatt, á virðisaukaskatti, sem innheimtur var eða innheimta bar í rekstri félagsins vegna sömu uppgjörstímabila, að frátöldum uppgjörstímabilunum mars – apríl 2017 og janúar – febrúar 2018. 

Þá var þeim jafnframt gefið að sök að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir Hornbjarg ehf. þannig að uppfyllti kröfur laga og að hafa vanrækt að varðveita eða tryggja vörslur fylgiskjala og annarra bókhaldsgagna vegna rekstrar félagsins.

Fram kemur að Theódór hafi gengist við brotum sínum samkvæmt ákæru, en Armando neitaði sök. Hann hafnaði því að hafa verið daglegur stjórnandi félagsins. 

Mönnunum fjórum var samtals gert að greiða 170 milljónir kr. …
Mönnunum fjórum var samtals gert að greiða 170 milljónir kr. í sekt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil óregla

Í dómnum segir m.a. að ljóst sé að mikil óregla hafi verið í lífi Theódórs á árunum 2017 og 2018, sem meðal annars hamlaði því að hann gæti sinnt störfum sínum og skyldum sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Hornbjargs ehf.

„Er að sama skapi ljóst, bæði með framburði Theódórs og að nokkru leyti með framburðum meðákærðu Lúthers og Hermanns sem hafa borið að þeir hafi að meginstefnu til átt samskipti við Armando að ákærði Armando hafi vegna þessa þurft að axla auknar byrðar og að hann hafi tekið á sig auknar skyldur í rekstri félagsins. Fær það einnig stoð í þeirri staðreynd að Armando tók tímabundið yfir bankareikninga félagsins, en sem fyrr segir kom fram hjá Theódóri fyrir dómi að þeir hefðu báðir haft aðgang að bankareikningum félagsins, þ.m.t. netbanka,“ segir í dómnum. 

Að því virtu þykir ekki óvarlegt að mati dómsins að leggja til grundvallar dómi í málinu að ákærðu Theódór og Armando hafi í sameiningu stýrt félaginu Hornbjargi ehf. á árunum 2017 og 2018, án tillits til þess hvor þeirra hafi verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins.

Brotin óumdeild

„Brot Theódórs samkvæmt þessari ákæru eru sem fyrr segir óumdeild og sönnuð með játningu hans sjálfs fyrir dómi. Með vísan til þess sem að framan segir um jafna ábyrgð ákærðu á rekstri Hornbjargs ehf. verður jafnframt að telja að ákærði Armando hafi gerst brotlegur við lög með þeim hætti sem lýst er í þessari ákæru málsins. Verða báðir ákærðu samkvæmt því sakfelldir fyrir þau brot sem lýst er í ákærunni og rakin hafa verið hér að framan,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

Lúther var sakaður um að hafa, sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins Stapafell ehf., að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali félagsins gjaldárin 2017 til og með 2019 vegna rekstraráranna 2016 til og með 2018, með því að færa til gjalda í skattskilum félagsins kostnað á grundvelli rangra og tilhæfulausra reikninga frá fjórum félögunum.

Honum var einnig gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum Stapafells ehf. vegna uppgjörstímabila rekstrarárin 2016, 2017 og 2018 með því að offramtelja innskatt á grundvelli rangra og tilhæfulausra sölureikninga frá fyrrgreindum félögum og þar með vanframtelja virðisaukaskatt vegna sömu uppgjörstímabila sem félaginu bar að standa skil á.

Loks var honum gefið að sök að hafa rangfært bókhald Stapafells ehf. vegna rekstrarára 2016 til og með 2018 með því að færa eða láta færa þar til gjalda ranga og tilhæfulausa sölureikninga frá fyrrgreindum félögum, í þeim tilgangi að hækka rekstrargjöld og innskatt í bókhaldi félagsins.

Lúther neitaði alfarið sök. Hann þvertók fyrir að um tilhæfulausa reikninga hefði verið að ræða, heldur hefði raunveruleg vinna legið að baki hverjum reikningi og því um eðlilegan kostnað að ræða. Hann hefur sömuleiðis leitast við að færa fram sönnun fyrir því að svo hafi verið.

Féllst ekki á skýringarnar

„Dómurinn getur ekki fallist á skýringar ákærða, nema að litlu leyti, enda er augljóst misræmi á milli þeirra reikninga sem um ræðir og greiðslna frá Stapafelli ehf., ekki aðeins varðandi fjárhæðir heldur einnig varðandi tíma. Þá hefur ákærði ekki nema að litlu leyti sýnt fram á að greiðslur hafi borist útgefanda þeirra reikninga,“ segir í dómnum. 

Það var jafnframt mat dómsins að framburður Lúthers varðandi þá þjónustu sem hann sagði að hefði verið að baki reikningum fyrrgreindra félaga væri í meginatriðum ótrúverðugur. Hann var því sakfelldur fyrir þau brot sem honum var gefin að sök í liðum a, b og c í fyrsta kafla ákærunnar. 

Þá var Armando ákærður fyrir  fyrir hlutdeild í skattalagabrotum Lúthers, eða til vara fyrir hlutdeild í bókhaldsbroti Lúthers, með því að gefa út ranga og tilhæfulausa reikninga á hendur Stapafelli ehf. í nafni félagsins Menn og verk ehf. rekstrarárin 2016 og 2017. Þeir voru síðan voru færðir og lagðir til grundvallar í bókhaldi og við skattskil Stapafells ehf. sem liður í brotum Lúthers. 

Sannað að hafa veitt liðsinni

Dómstóllinn féllst á það með ákæruvaldinu að sannað væri að Armando hefði, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Manna og verka ehf., veitt Lúther liðsinni í verki og þannig veitt atbeina sinn í framkvæmd við framningu þeirra skattalagabrota sem lýst er í ákæru.

„Hefði ákærði Armando ekki gefið út þá reikninga sem hér um ræðir hefði ákærði Lúther ekki getað notað þá reikninga við að fremja þau brot sem lýst er í A- og B-liðum I. kafla ákærunnar. Verður sömuleiðis að miða við að ákærði Armando hafi vitað að um tilhæfulausa reikninga hafi verið að ræða, sem ákærði Lúther hygðist færa sem rekstrargjöld í rekstri Stapafells ehf. og nýta innskatt vegna reikninganna til frádráttar á útskatti félagsins,“ segir í dómi héraðsdóms. Hann var því sakfelldur fyrir það brot sem honum var gefið að sök í D-lið I. kafla ákærunnar. 

Hermann var gefið að sök að hafa sem sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins HR Bygg ehf. (áður Parket og smíðar ehf.) gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali félagsins gjaldárið 2019 vegna rekstrarársins 2018. Einnig að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins HR Bygg ehf. vegna allra uppgjörstímabila 2018 og á tímabilinu janúar–ágúst rekstrarárið 2019. Loks með því að hafa rangfært bókhald félagsins HR Bygg ehf. vegna rekstraráranna 2018 og 2019.

Hann neitaði sök. Dómurinn mat framburð hans ótrúverðugan og var sakfelldur fyrir þau brot sem honum var gefið að sök í liðum a, b og c í þriðja kafla ákærunnar. 

Dómur héraðsdóms. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert