Með skerta aksturshæfni og undir slævandi áhrifum

Fjöl­mennt lið lög­reglu, sjúkra­flutn­ings­manna og slökkviliðs var við störf við …
Fjöl­mennt lið lög­reglu, sjúkra­flutn­ings­manna og slökkviliðs var við störf við höfnina. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Karlmaður sem lést er bifreið hans fór yfir bryggjukant og hafnaði í sjónum við Nausthamarsbryggju í Vestmannaeyjum var með skerta aksturshæfni vegna bráðra veikinda.

Maðurinn, sem var á áttræðisaldri, var einnig undir slævandi áhrifum af blöndu svefnlyfja við andlátið. Niðurstöður á lyfjamælingu leiddu í ljós svefnlyf í of háum skammti og auk þess önnur svefnlyf í samræmi við ávísun.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um atvikið. 

Bifreiðin kyrrstæð við bryggjuna í tæpar 50 sekúndur

Slysið átti sér stað 11. apríl 2023. Þá var fólksbifreið ekið inn á Nausthamarsbryggju í Vestmannaeyjum og stöðvuð þar við bryggjukantinn. Þar var bifreiðin kyrrstæð í tæpar 50 sekúndur. Þá var henni ekið af stað, yfir bryggjukantinn og hafnaði hún í sjónum. 

Samkvæmt skýrslunni var hliðið að bryggjunni var opið þegar slysið varð og var akstur ökutækja greiður inn á svæðið. Að sögn hafnaryfirvalda er bryggjan að öllu jöfnu opin og umferð um hana heimil.

Myndskeið úr öryggismyndavélum á svæðinu sýna að þann tíma sem bifreiðinni var lagt við bryggjukantinn voru hemlaljós hennar tendruð. 

„Um einni sekúndu áður en bifreiðinni var ekið af stað fóru hemlaljósin af, komu síðan aftur á og fóru svo af þegar bifreiðin fór af stað og yfir bryggjukantinn.“

Framendi bifreiðarinnar fór á kaf en farþegarými hennar stóð að mestu upp úr sjónum til að byrja með. Bílinn var á floti í um 2 mínútur og 45 sekúndur samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar.

Skert aksturshæfni og röng lyfjanotkun

Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni. Þá kemur fram í skýrslunni að hann hafi verið með gild ökuréttindi sem voru nýlega endurnýjuð, þrátt fyrir langa sögu um alvarleg veikindi.

Samkvæmt skýrslunni voru meginorsök slyssins skert aksturshæfni vegna bráðra veikinda. 

Aðrar orsakir voru röng lyfjanotkun og langvarandi heilsubrestur mannsins. 

Maður­inn var meðvit­und­ar­laus þegar hann náðist úr bíln­um. End­ur­lífg­un bar ekki ár­ang­ur og var hann úr­sk­urðaður lát­inn á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert