„Hælisleitendum í Reykjanesbæ verður að fækka“

Ráðhúsið í Reykjanesbæ.
Ráðhúsið í Reykjanesbæ. mbl.is/Sigurður Bogi

Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í gær samþykkti meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar að samþykkja samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku 250 flóttamanna.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn þessu ásamt einum bæjarfulltrúa Umbótar.

Í bókun Sjálfstæðismanna segir:

- Samningurinn gildir frá 1. janúar 2024 og það fjármagn sem greiða á stendur ekki undir þeim kostnaði sem fallið hefur á Reykjanesbæ.

- Síðasti samningur gerði ráð fyrir að flóttamönnum í samræmdri móttöku myndi vera fækkað í 150 fyrir árslok 2023. Það gekk ekki eftir.

- Enn eru umsækjendur um alþjóðlega vernd allt of margir í Reykjanesbæ og hefur illa tekist að fækka þeim.

„Sjálfstæðisflokkurinn harmar að álagið vegna flóttafólks valdi því að þjónusta sveitarfélagsins við bæjarbúa, þar með talin þau 33% íbúa sem eru af erlendu bergi brotin, sé ekki betri en raun ber vitni. Sveitarfélagið er komið langt yfir þolmörk. Hælisleitendum í Reykjanesbæ verður að fækka,“ segir ennfremur í bókun Sjálfstæðismanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert