„Leitt að heyra af þessu“

Monika segir að almennt séu seljendur fasteigna að sýna Grindvíkingum …
Monika segir að almennt séu seljendur fasteigna að sýna Grindvíkingum svigrúm og þolinmæði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Monika Hjálmtýsdóttir, formaður Félags fasteignasala (FF), kveðst ekki hafa heyrt af því að seljendur okri á Grindvíkingum í leit að húsnæði.

Rætt var við Grindvíking á mbl.is í gær, sem lýsti reynslusögu sinni af fasteignamarkaðinum.

Segir hann að seljandi fasteignar hafi nýtt sér stöðu Grindvíkinga til að hækka söluverð um 5 milljónir.

Monika segir að það sé leitt að heyra af þessu dæmi. 

„Það er samningsfrelsi og ef seljandi vill slíta samningi sem er runninn út á fyrirvara – eins og er gert í þessu dæmi – þá hefur hann auðvitað val um það. Þarna eru auðvitað markaðsöflin að ráða för sem bitnar svona illilega í þessu tilfelli á þessum Grindvíkingum, sem er mjög leitt að heyra,“ segir Monika í samtali við mbl.is.

Höfða til félagsmanna að gefa Grindvíkingum svigrúm

Hún kveðst ekki hafa heyrt önnur dæmi þess efnis að okrað sé á Grindvíkingum. Sífellt fleiri sögur berist þó af því að angist Grindvíkinga fari vaxandi vegna fasteignamarkaðarins.

„Auðvitað er leitt að heyra af þessu. Við höfum verið að höfða til okkar félagsmanna, að gefa Grindvíkingum svigrúm til að klára söluna á eignunum í Grindavík og við vitum að þetta hefur tekið meiri tíma en áætlað var,“ segir hún.

Hún segir að almennt séu seljendur að sýna Grindvíkingum svigrúm og þolinmæði og því sé þetta dæmi vonandi bara undantekning.

Þó komi upp flóknar aðstæður fyrir seljendur eins og til dæmis ef þeir sjálfir eru að reyna að kaupa sér hús annars staðar á sama tíma. Þá gætu þeir verið að bíða eftir grindvískum kaupendum, sem eru sjálfir að bíða eftir því að Þórkatla kaupi upp húsnæðið þeirra.

„Það er auðvitað erfið staða fyrir seljendur oft, að sýna þessa biðlund ef það hefur þá þýðingu að þeir sjálfir missa af kaupum,“ segir Monika. 

Ef um er að ræða beina sölu og bein kaup þá hefur hún aðallega heyrt sögur af biðlund seljenda í garð Grindvíkinga.

Innkoma Grindvíkinga tímabundið ástand

Varðandi sjálfan fasteignamarkaðinn segir Monika að spennan á markaðnum sé áberandi. Hluta af því megi eflaust rekja til þess að fasteignafélagið Þórkatla er byrjað að kaupa upp fasteignir hjá Grindvíkingum og þeir sömuleiðis að kaupa aðrar fasteignir.

„Við lítum á innkomu Grindvíkinga á markaðinn sem tímabundið ástand, því svo kemur að því að þeir klára að koma sér fyrir. Vonandi tekst það hjá öllum að gera það með góðu móti.

En svo erum við að sjá fram á að það er búið að vera að halda fasteignamarkaðnum almennt niðri með aðgerðum Seðlabankans og núna ríkir ákveðin bjartsýni á framhaldið og framtíðina.

Það hefur þá þýðingu að kaupendur og fólkið þarna úti, sem hefur hug að því að eiga í fasteignaviðskiptum, er að koma inn á markaðinn með væntingar um betri horfur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert