Myndskeið: Braut rúðurnar og rölti svo í burtu

Maðurinn sem braut allar rúður í verslun Fiskikóngsins á Sogavegi 3 fyrir miðnætti er andlega veikur. Verður honum líklega komið fyrir í viðeigandi úrræði.

Þetta segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Eins og sjá má í myndbandinu þá kom maðurinn með þakrennu og tók að berja henni í rúðurnar þar til þær brotnuðu. Það tók hann um 45 sekúndur að brjóta allar rúðurnar og svo gekk hann í burtu.

Maður sem þarf á hjálp að halda

„Það á eftir að ræða við hann en miðað við það hvernig við þekkjum hann þá er þetta andlega vanheill maður sem veit eiginlega ekki hvað hann er að gera. Það verður líklegast reynt að koma [honum] á viðeigandi stofnun í þetta sinn,“ segir Guðmundur.

Tilkynning barst lögreglu klukkan 23.12 sem virðist vera nákvæmlega um sama leyti og maðurinn brýtur rúðurnar, miðað við myndbandið.

„Hann klárlega þarf á hjálp að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert