Halla Hrund hækkar en Katrín áfram efst

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi mælist áfram með mest fylgi samkvæmt könnun …
Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi mælist áfram með mest fylgi samkvæmt könnun Maskínu sem kom út í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningur við Katrínu Jakobsdóttur til að gegna embætti forseta mælist 31,4% í nýrri könnun Maskínu. Mælist Katrín með mesta stuðninginn, en lækkar þó um 1,5 prósentustig milli kannana Maskínu.

Stuðningur við þá frambjóðendur sem mælast með mestan stuðning dregst örlítið saman, nema hjá Höllu Hrund Logadóttur, en stuðningur við hana tæplega tvöfaldast og mælist hann nú 10,5%.

Baldur með 24,0% stuðning

Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar á Vísi, en Baldur mælist nú með 24,0% eftir að hafa verið með 26,7% áður, Jón Gnarr með 18,9% eftir að hafa verið með 19,6% áður og Halla Tómasdóttir með 6,7%, en hún var með 7,3% í fyrri könnun. Aðrir frambjóðendur eru með undir 5%

Könnun Maskínu var framkvæmd dagana 12. til 16. apríl.

Jón Gnarr vinsælli hjá ungu fólki

Katrín er sterkust meðal eldri kjósenda meðan Jón Gnarr sækir meirihluta stuðnings síns til yngra fólks. Stuðningur við aðra frambjóðendur er jafnari.

Konur eru líklegri til að vilja sjá Katrínu, Baldur, Höllu Hrund og Höllu Tómasdóttur sem forseta, en karlar eru líklegri til að kjósa Jón Gnarr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert