Kveðst tala af virðingu: „Ég er enginn dóni“

Jón Gnarr kveðst ávallt reyna að tala heiðarlega og af …
Jón Gnarr kveðst ávallt reyna að tala heiðarlega og af virðingu.

„Ég er spurður beint um þetta og ég get ekki svarað öðruvísi en samkvæmt sannfæringu minni. Ég vil heldur ekki draga fjöður yfir það sem mér finnst. Mér finnst það ekki alveg heiðarlegt að hafa einhverja meiningu en vilja ekki segja hana af einhverjum meðvirknisástæðum eða svoleiðis.“

Þetta segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi, í samtali við mbl.is vegna ummæla hans á dögunum um forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur.

Ummælin féllu í hlaðvarp­inu Ein pæl­ing og sagði Jón meðal annars að fram­boð Katrín­ar væri skrýtið og absúrd, og að hún bæri ábyrgð á því að Bjarni Bene­dikts­son væri orðinn for­sæt­is­ráðherra

Jón tekur fram að hann hafi ekki verið málshefjandi um þetta umræðuefni.

Tekur ekki undir söguskýringuna

Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson sagði í samtali við mbl.is í kjölfarið að þessi gagnrýni minnti helst á kosn­inga­bar­áttu Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar árið 2012 og á kosn­inga­bar­áttu Davíðs Odds­son­ar árið 2016.

Jón segir þessa greiningu Ólafs ekki rétta. Þegar hann hafi verið að íhuga framboð sitt hafi hann meðal annars lesið bók Páls Valssonar, Vigdís – Kona verður forseti, þar sem Jón segir að beitt gagnrýni á milli frambjóðenda komi fram.

„Það var gríðarleg harka í þeirri kosningabaráttu. Þannig þetta er hreint ekki rétt, að einhver þung orð séu látin falla í kosningabaráttu séu nýmæli sem komu með Ólafi Ragnari – þetta er fjarstæða. Vigdís þurfti að ganga í gegnum svipugöng þannig mér finnst þetta svolítið sérkennileg söguskoðun,“ segir hann og bætir síðar við:

„Ég er enginn dóni og ég reyni að segja hluti af virðingu en samt að tala meiningu mína.“

Fer ekki undan í flæmingi ef hann er spurður um álitamál

Meðal þess sem Jón Gnarr sagði í hlaðvarpinu var að Katrín bæri ábyrgð á því að Bjarni Benediktsson væri orðinn forsætisráðherra. Spurður hvort að þetta sé mæt gagnrýni sem hann og aðrir frambjóðendur ættu að tileinka sér áfram í kosningabaráttunni segir Jón:

„Mér finnst bara oft eitthvað þurfa að koma fram og þegar það er komið fram þá þarf ekkert endilega að hamra á því. Ég hef enga þörf fyrir því að hamra á einhverjum leiðindum gagnvart Katrínu, bara alls ekki,“ svarar Jón.

Hann kveðst vera þannig gerður að þegar hann er spurður beint út þá svari hann heiðarlega um sína sannfæringu, þó það komi honum ekki alltaf vel.

„Ég fer ekki undan í flæmingi ef ég er spurður um eitthvað álitamál. Þá reyni ég að segja hver sannfæring mín er og skoðun.“

Hefur ekkert horn í síðu Bjarna

Kemur þetta þér ekki í skrýtna stöðu gagnvart Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, verðir þú forseti, að þú hafir sagt að Katrín þyrfti að axla ábyrgð á því að Bjarni væri forsætisráðherra?

„Alls ekki. Ég hef ekkert horn í síðu Bjarna Benediktssonar, ekki neitt. Ég er bara að benda á þá augljósu stöðu að Katrín fer frá þessu starfi, að vera forsætisráðherra, sem verður til þess að Bjarni verður forsætisráðherra.

Það er stór hluti þjóðarinnar mjög ósáttur við það og ég er bara að benda á það að hún þarf að axla þarna ábyrgð. Hún ber ábyrgð á þessu og það hefur ekkert með skoðanir mínar á Bjarna að gera, ekki neitt. Ég hef ekkert út á Bjarna Benediktsson að setja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert