Fasteignamarkaðurinn hitnaði í febrúar og voru kaupsamningar í mánuðinum 990, eða 80% fleiri samanborið við janúar. Miðað við febrúar í fyrra voru kaupasamningur rúmlega helmingi fleiri í ár. Á leigumarkaði hefur leiguverð hækkað hratt og þá sérstaklega á Suðurnesjum.
Búist er við miklum samdrætti í íbúðauppbyggingu en hefja þyrfti framkvæmdir á tæplega 3.500 íbúðum til viðbótar á þessu ári til að byggja í samræmi við íbúðaþörf árið 2026.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Þegar litið er á kaupsamninga var breytingin mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en gerðir voru ríflega þrefalt fleiri kaupsamningar í Reykjanesbæ samanborið við fyrir mánuð. Þá voru rúmlega tvöfalt fleiri samningar gerðir á Akranesi og tæplega tvöfalt fleiri í sveitarfélaginu Árborg.
Fleiri íbúðir seldust á yfirverði í febrúar eða 13,4% allra íbúða samanborið við 9,9% í janúar.
Þessa hækkun má rekja til fleiri íbúða sem seljast á yfirverði á höfuðborgarsvæðinu. Þar seldust 15% íbúða á yfirverði.
Í nágrenni við höfuðborgarsvæðinu seldust um 9,1% íbúða á yfirverði og annars staðar á landinu var hlutfallið 11,8%
Á höfuðborgarsvæðinu er mestur kaupþrýstingur í póstnúmerum 107 og 220 þar sem rúmlega þriðja hver íbúð seldist á yfirverði.
Utan höfuðborgarsvæðisins er mestur kaupþrýstingur í Reykjanesbæ. Þar seldist tæplega fimmta hver íbúð á yfirverði.
Í skýrslunni kemur fram að leigumarkaðurinn ber merki um viðsnúning, þar sem leiguverð hækkar hratt umfram almennt verðlag, sér í lagi á Suðurnesjum.
Leigjandi stærri leiguíbúðar á Suðurnesjum greiddi 215 þúsund krónur í upphafi árs 2023 en greiðir nú um 285 þúsund krónur. Leiguverð á öllum íbúðum á Suðurnesjum er nú 16% hærra en það var í september í fyrra.
Meðalleiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkuð um 3% til 9% á sama tíma.
Í skýrslunni segir að byggingamarkaðurinn hafi dregist saman á síðustu mánuðum. Íbúðatalning HMS sýnir að framkvæmdum hefur fækkað síðustu 12 mánuði og áætlað er að 1.406 íbúðir komi á markað árið 2026.
Þetta er um og innan við helmingur af væntu framboði íbúða í ár og eins á næsta ári.
Um er að ræða birtingarmynd þess að of lítið af nýjum framkvæmdum fór af stað á síðasta ári.
Úr talningu í mars og í september má sjá að farið hefur verið af stað með framkvæmdir á 1.887 íbúðum, þar af 1.333 á höfuðborgarsvæðinu. Það er einungis helmingur af þeim framkvæmdum sem fóru af stað síðustu tólf mánuði þar á undan.
Ýktari sögu er að segja af nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem 261 íbúð fór í framkvæmd á síðustu tólf mánuðum samanborið við 1.002 tólf mánuði þar á undan.
Talningar HMS og kannanir Samtaka iðnaðarins (SI) benda til mikils samdráttar í
byggingariðnaði frá ársbyrjun 2023.
Könnun SI í byrjun árs 2024 gaf vísbendingu um 15% samdrátt í áformum til
viðbótar á milli ára, en nýjasta íbúðatalning HMS í mars, sem sýndi 9,3% samdrátt í
umfangi íbúða í byggingu, staðfesti þær vísbendingar
Samkvæmt töflunni mun uppbygging íbúða einungis ná að sinna um 56% af væntri íbúðaþörf þessa árs og næsta árs, ef tekið er tillit til aukinnar húsnæðisþarfar vegna búferlaflutninga Grindvíkinga.
HMS áætlar að 1.406 íbúðir sem eru nú í byggingu komi inn á markað árið 2026, sem er nægilega mikið til að sinna um 29% af væntri íbúðaþörf á því ári.
Hefja þyrfti framkvæmdir á tæplega 3.500 íbúðum til viðbótar það sem af er ári til að byggt verði í samræmi við íbúðaþörf árið 2026
Lánamarkaðurinn sýnir að heimilin leita til banka í auknum mæli í fjármögnun
íbúðakaupa. Þetta er breyting frá síðasta ári þegar mikið jafnræði ríkti milli banka og
lífeyrissjóða í nýjum lánveitingum til íbúðakaupa heimila.
Hrein ný íbúðalán jukust um 20% frá því í janúar og alls námu þau um 12,2 ma. króna í febrúar.
Megnið af þessum lánum voru útlán banka til heimila.
Þessar nýju lánveitingar bankanna í janúar og febrúar eru tæplega tvöfalt hærri en lánveitingar lífeyrissjóða landsins.