Telur eyðsluna munu rjúka upp úr öllu valdi

Margir horfa nú til Bessastaða og auglýsa þau áform á …
Margir horfa nú til Bessastaða og auglýsa þau áform á samfélagsmiðlum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kostnaðurinn við keyptar auglýsingar á Facebook mun líklega rjúka upp úr öllu valdi þegar nær dregur forsetakosningunum 1. júní.

Þetta segir Agn­ar Freyr Gunn­ars­son, deild­ar­stjóri net­markaðssviðs hjá Birt­inga­hús­inu, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá hefur Ástþór Magnús­son for­setafram­bjóðandi varið að minnsta kosti 6.027.222 krón­um í póli­tísk­ar aug­lýs­ing­ar á Facebook síðustu 90 daga.

Aðrir frambjóðendur hafa einnig látið til sín taka á Facebook en enginn kemst þó nálægt Ástþóri að því er best verður séð.

Þannig er Sigríður Hrund Pétursdóttir forsetaframbjóðandi búin að eyða næst mest allra frambjóðenda á Facebook, eða 264.422 krónum, og gerir hún það í gegnum Facebook-síðuna Frú forseti.

Agn­ar Freyr Gunn­ars­son, deild­ar­stjóri net­markaðssviðs hjá Birt­inga­hús­inu.
Agn­ar Freyr Gunn­ars­son, deild­ar­stjóri net­markaðssviðs hjá Birt­inga­hús­inu. Ljósmynd/Aðsend

Mun aukast fram á síðustu stundu

Guðbergur Guðbergsson forsetaframbjóðandi hefur eytt 67.188 krónum í auglýsingar á Facebook. Helga Þórisdóttir hefur eytt um 40 þúsund krónum og Halla Hrun Logadóttir hefur eytt um 25 þúsund krónum.

Aðrir frambjóðendur hafa eytt undir 10 þúsund krónum.

„Þetta mun aukast alveg fram á síðustu stundu. Takturinn hefur verið þannig í sveitarstjórnarkosningum og Alþingiskosningum að þetta eykst dag frá degi. Þetta er mikill sprettur þarna síðustu dagana og þar mun eyðslan fara upp úr öllu valdi hjá þessum frambjóðendum,“ segir Agnar.

Hagkvæmur kostur

Hann segir að einn helsti kosturinn við að auglýsa á miðlum Meta (Facebook og Instagram) og Google sé sá að hægt sé að auglýsa þar fyrir litlar fjárhæðir. Á öðrum miðlum þurfi ákveðna lágmarksupphæð til að byrja auglýsa en þarna sé hægt að byrja að auglýsa fyrir aðeins 1.000 krónur.

„Það sem er gott við Facebook sem auglýsingamiðil er í raun þessar skilgreiningar sem þú getur gert með aldur, búsetu og áhugasvið,“ segir Agnar.

Hann segir þessar auglýsingar jafn gildar og aðrar til að koma sér og málefnum á framfæri. Einn af kostum Facebook og Google sé hversu hagkvæmt það sé að birta auglýsingar á þessum miðlum.

„Þannig ég skil vel að einstaklingar sem eru ekki stórefnaðir og eru að taka þátt í þessum kosningum nýti sér þessa miðla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert