Spursmál: Fyrsta stóra viðtal Katrínar

Katrín Jakobsdóttir, Börkur Gunnarsson og Ásdís Kristjánsdóttir eru gestir Stefáns …
Katrín Jakobsdóttir, Börkur Gunnarsson og Ásdís Kristjánsdóttir eru gestir Stefáns Einars Stefánssonar í nýjasta þætti Spursmála. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra, sat fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála.

Er þetta fyrsta stóra viðtalið sem Katrín veitir eftir að hún ákvað að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.

Þátturinn var sýndur í beinu streymi hér á mbl.is fyrr í dag en upptökuna má sjá í spilaranum hér að neðan, á Spotify og Youtube og er hún öllum aðgengileg.

Krefjandi spurningum beint að Katrínu

Niðurstöður nýjustu skoðanakannana hafa sett svip á framboðsbaráttuna síðastliðna daga og er óhætt að segja að spennan sé tekin að magnast.

Í þættinum var rýnt í tölur úr skoðanakönnunum og lagt mat á hvaða þýðingu þær geti haft fyrir framboð Katrínar til embættis forseta.

Skiptar skoðanir eru á forgöngu Katrínar til framboðsins vegna stjórnmálaferils hennar og mörgum spurningum þótt enn ósvarað. Af þeirri ástæðu voru krefjandi spurningar lagðar fyrir Katrínu í þættinum um það hvernig hún hyggst gegna embætti forseta nái hún kjöri.

Knúið var fast á um svör hvaða hugsjón Katrín hefur á stjórnarskrá Íslands, tungumálinu, málskotsréttinum og ýmsu öðru sem kemur í hlutskipti forsetans og sameinar þjóðina.

Fjölbreytt fréttavika að baki

Auk Katrínar mættu þau Börkur Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi upplýsingafulltrúi þjálfunarsveita NATO, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, í settið og rýndu helstu fréttir líðandi viku.

Upplýsandi umræða skapaðist um átökin sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs um þessar mundir. Fregnir af árásum Írans og Ísrael í báðar áttir eru mikið áhyggjuefni fyrir heimsbyggðina og hafa vakið upp ýmsar spurningar hér á landi sem og annars staðar.

Þróun ríkisfjármálanna skaut einnig upp kollinum í vikunni og komið var inn á í þættinum. Fjármál ríkisins brenna oftar en ekki á landanum enda um eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða og margt sem þykir betur mega fara í þeim efnum.

Ekki missa af fræðandi, upplýsandi og fjörugri umræðu í Spursmálum hér á mbl.is alla föstudaga kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert