Að minnsta kosti vika í nýtt gos

Íslendingar hafa mátt horfa upp á fleiri eldgos á örfáum …
Íslendingar hafa mátt horfa upp á fleiri eldgos á örfáum misserum nú en nokkru sinni áður á sögutíma. mbl.is/Arnþór

„Þetta er náttúrulega bara eins og við er að búast, flæðið að neðan skiptir sér í tvær leiðir og byrjaði á því að fara upp úr þessu grunna kvikuhólfi í upphafi gossins sem nú stendur yfir,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Umræðuefnið er kvikusöfnun í hólf undir Svartsengi sem nú nálgast neðri mörk þess magns sem orðið gæti kveikjan að eldgosi, jafnvel næstu vikuna eða tvær að því er Þorvaldur telur.

„Við fengum beint flæði upp úr dýpra kvikuhólfinu [eftir að yfirstandandi gos hófst] og svo fór það flæði líka inn í grunnstæða kvikuhólfið og þá byrjaði landrisið aftur sem hætti einhvern tíma eftir að gosið byrjaði. Hluti af flæðinu úr dýpra kvikuhólfinu er að pumpast inn í þetta grynnra og smátt og smátt fyllist það þar til það kemst að þolmörkum sem er það sem er að gerast núna,“ útskýrir prófessorinn.

Breytilegt hvar hólfið þenst mest

Nú sé kvikusöfnunin í grynnra hólfinu að nálgast þær átta milljónir rúmmetra sem almennt er talið að nægi til að gos hefjist en að sögn Þorvaldar getur gos einnig hafist í kjölfar töluvert meiri kvikusöfnunar. Hverjir þættir skyldu stjórna þessu?

„Það er sennilegast að það sé hve mikil kvika er eftir frá fyrra gosi sem stjórnar því og eins líka hvort einhver breytileiki, aukning eða minnkun, sé úr dýpra kvikuhólfinu. Þetta er ákveðið jafnvægi, eitthvað fer inn og eitthvað út, þetta skiptir máli hvað snertir hraðann á landrisinu, ef innflæðið breytist breytist hraðinn á landrisinu einnig og svo getur það verið breytilegt hvar hólfið þenst mest, sú miðja getur færst og var að færast aðeins vestar á tímabili,“ svarar Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson prófessor fer yfir stöðu mála á Reykjanesskaganum með …
Þorvaldur Þórðarson prófessor fer yfir stöðu mála á Reykjanesskaganum með Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Arnþór

Aðspurður segir hann erfitt að spá um fyrirvarann áður en hugsanlegt nýtt eldgos rýfur yfirborðið. „Það er mjög skrýtið að vera að tala um annað gos úr kerfi sem er í gangi núna, ég reikna með að ef við náum þolmörkum í geymsluhólfinu og kvika vill fara að komast út er eðlilegast að hún leiti í þá gosrás sem er opin núna, mér finnst það vera líklegast þótt við getum ekki útilokað að þegar komið er að þolmörkum fari kvikan að leita eitthvað annað,“ segir Þorvaldur og líkir goskerfinu við tvær pípur. Gangi flæði um eina pípu ekki eftir sé spurningin hvenær bakþrýstingur fari að hafa áhrif á flæðið í hinni.

Hluti ákveðinnar þróunarsögu

Þorvaldur telur eina til tvær vikur geta liðið þar til dragi til tíðinda og að minnsta kosti sé vika þangað til. „Núna fer um það bil helmingur kvikunnar inn í neðra hólfið og hinn helmingurinn upp. Við erum að nálgast átta milljónir rúmmetra núna og ef við ætlum yfir tíu þurfum við að minnsta kosti fjóra-fimm daga til viðbótar ef miðað er við flæðið.“

Hann segir atburðarásina nú bara hluta af ákveðinni þróunarsögu í gosinu. Kerfið sé að þróast núna. „Þessir atburðir og þessi þróun ætti ekkert að koma okkur á óvart,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor að lokum um gang mála undir Svartsengi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka