Hyggst sitja í átta til tólf ár

Nái Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra, kjöri til embættis forseta Íslands telur hún hæfilegt að gegna embættinu í tvö til þrjú kjörtímabil. Eitt kjörtímabil sé hins vegar of stuttur tími.

Þetta upplýsir hún í viðtali í Spursmálum sem vakið hefur mikla athygli frá því að það var sent út síðdegis í gær.

Misjöfn raun forsetanna

Forsetar Íslands hafa reynst mjög mis þaulsætnir í embætti. Fyrsti forsetinn lést raunar í embætti 1952 og hafði þá setið á Bessastöðum í því embætti í tæp átta ár en sem ríkisstjóri nokkur ár þar á undan.

Eftirmaður hans, Ásgeir Ásgeirsson sat í fjögur kjörtímabil, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir 1980-1996. Kristján Eldjárn gegndi hins vegar embættinu á milli þeirra tveggja og sat í þrjú kjörtímabil.

Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra, telur ólíku saman að jafna að …
Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra, telur ólíku saman að jafna að sitja á þingi eða á Bessastöðum. Hún sat 17 ár á þingi en mun ekki sitja lengur en 12 ár í embætti forseta, nái hún kjöri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn setið lengur en Ólafur Ragnar

Þaulsætnastur þeirra allra er hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson. Hann sat fimm kjörtímabil eða 20 ár og lét raunar að því liggja um skamma hríð að til greina kæmi að hann byði sig fram sjötta sinni. Þegar hann bauð sig hins vegar fyrst fram til embættisins 1996 lýsti hann því yfir að forseti ætti ekki að sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

Guðni Th. Jóhannesson, sem tók við embætti forseta 2016 verður annar skammsætnasti forsetinn á eftir Sveini því hann hefur ákveðið að láta gott heita eftir tvö kjörtímabil í hinu háa embætti.

Listi yfir forsetana og setu þeirra í embætti

Sveinn Björnsson - Tæp 8 ár (1945-1952)
Ásgeir Ásgeirsson - 16 ár (1952-1968)
Kristján Eldjárn - 12 ár (1968-1980)
Vigdís Finnbogadóttir - 16 ár (1980-1996)
Ólafur Ragnar Grímsson - 20 ár (1996-2016)
Guðni Th. Jóhannesson - 8 ár (2016-2024)

Ætlaði að sitja í átta ár á þingi

Í viðtalinu upplýsir Katrín að hún hafi í fyrstu aðeins ætlað sér að sitja á Alþingi í tvö kjörtímabil eða átta ár. Raunin hafi hins vegar orðið 17 ár. Hún tók fyrst sæti á þingi árið 2007 og hefur setið þar sleitulaust síðan.

„Ég sé ekki fyrir mér að ég verði lengur í þessu [12 ár]. Ég hins vegar sagði þegar ég fór á þing, ég sagði það reyndar ekkert opinberlega þannig að það veit enginn af því að ég ætlaði að vera þar 8 ár. En það teygðist aðeins úr þvi. En ég sé ekki fyrir mér, mér finnst þetta embætti annars eðlis, satt að segja. Mér finnst þetta vera hæfilegur tími og ég sé ekki að það sé neitt sem valdi því að ég skipti um skoðun á því,“ segir Katrín.

Viðtalið við Katrínu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert