Líkti forsetaframbjóðendum við Guðna Ágústsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir á flokksþinginu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir á flokksþinginu. mbl.is/Óttar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, gerði á flokksþingi Framsóknar góðlátlegt grín að frambjóðendum til embættis forseta Íslands.

Hún sagði meira og minna alla frambjóðendurnar vera komna í lopapeysu að láta taka myndir af sér brosandi úti á landi með hund eða lamb sér við hlið.

„Það má eiginlega segja að við séum að horfa upp á lítinn Guðna Ágústsson [fyrrverandi landbúnaðarráðherra]í hverjum einasta frambjóðanda,” sagði hún og uppskar mikinn hlátur í salnum.

Gagnrýndi Samfylkinguna

Líkt og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem steig í pontu á undan henni gagnrýndi Lilja Dögg Samfylkinguna og sagði hana nánast hafa gengið inn í Framsóknarflokkinn með stefnumálum sínum.

Nefndi hún andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið, nýtingu fleiri virkjanakosta og raunsæjar breytingar á málefnum útlendinga sem dæmi.

Frá flokksþinginu.
Frá flokksþinginu. mbl.is/Óttar

Hún sagði Samfylkinguna hafa tekið hverja U-beygjuna á fætur annarri í málflutningi sínum og að flokkurinn væri í raun og veru að keppast að því að gera stefnu Framsóknarflokksins að eigin stefnu.

Hún sagði að ef Samfylkingin yrði leiðandi hér á landi yrði aðild að ESB komin á dagskrá íslenskra stjórnvalda með tilheyrandi sjálfstæðisfórn. Þetta yrði Framsóknarfólk að koma í veg fyrir.

„Þjóðinni hefur alltaf vegnað best þegar við höfum efnahagslegt sjálfstæði. Það má ekki vera þannig að við sofnum eitthvað á þeirri vakt. Ég get lofað ykkur því að þá fer að fjara undan þessum góðu lífsgæðum sem við höfum hér á Íslandi í dag,” sagði Lilja Dögg.

„Ekki einn dropi einkavæddur“

Hún minntist á að græn raforkuframleiðsla hefði verið einn helsti burðarás lífskjarasóknar í landinu.

„Ég ætla ekki að neita því að sú kyrrstaða sem hefur verið í raforkuvinnslu hér á landi hún veldur auðvitað gríðarlegum áhyggjum,” sagði hún. Fara þurfi frá rauðu ljósi yfir á grænt ljós í orkumálunum.

Sigurður Ingi á flokksþinginu.
Sigurður Ingi á flokksþinginu. mbl.is/Óttar

Lilja Dögg talaði um mikilvægi Landsvirkjunar og nefndi að fyrirtækið hefði skilað 55 milljörðum í arðgreiðslur í ríkissjóð að undanförnu.

„Það verður ekki einn dropi einkavæddur hjá Landsvirkjun á okkar vakt,” sagði hún og uppskar við það lófaklapp.

Lilja Dögg sagðist í lok ræðu sinnar vilja gegna stöðu varaformanns Framsóknarflokksins áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert