Má ekki vera með lögheimili á Íslandi

Maðurinn hafði búið erlendis síðastliðinn 8-9 ár á sama tíma …
Maðurinn hafði búið erlendis síðastliðinn 8-9 ár á sama tíma og hann þáði örorku frá TR. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli manns sem krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins.

Í þeim úrskurði var staðfest synjun Þjóðskrár Íslands á beiðni mannsins um að felld yrði úr gildi lögheimilisskráning hans og fjölskyldu hans erlendis.

Ágreiningur málsins fólst í því að maðurinn er öryrki og naut greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) þrátt fyrir að hafa búið erlendis síðastliðin átta til níu árin. 

Geðsjúkdómur ekki réttlæting dvalarinnar

Í málsatvikum dómsins segir að grunur léki á því að lögheimili mannsins og fjölskyldu væri ekki rétt skráð í þjóðskrá. Fyrir vikið sendi TR Þjóðskrá Íslands (ÞÍ) bréf til að komast að því hvort maðurinn ætti rétt á skráðu lögheimili á Íslandi. 

Þjóðskrá hafði samband við manninn og bað hann um að færa rök fyrir skráningu lögheimilis á Íslandi þrátt fyrir búsetu erlendis.

Maðurinn sagði dvöl sína og fjölskyldu erlendis vera sökum heilsufars og fyrir vikið bað ÞÍ um að leggja fram læknisvottorð eða staðfestingu frá lækni um slíkt.

Maðurinn áframsendi að lokum tölvupóst frá heimilislækni sínum, þar sem kom fram að ekki væri hægt að verða við beiðni mannsins um vottorð þess efnis að dvöl erlendis væri betri en á Íslandi fyrir fólk með geðsjúkdóma, því ekki væri hægt að réttlæta það læknisfræðilega. 

Kona mannsins glímdi einnig við veikindi

Maðurinn sagði þá aðra ástæðu dvalarinnar erlendis vera veikindi fyrrverandi eiginkonu sinnar, en í niðurstöðu dómsins segir að sökum þess að þau hafi verið skilin lögskilnaði hafi veikindi hennar ekki getað réttlætt langa dvöl hans erlendis. 

Staðfesti Landsréttur þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði staðfest úrskurð samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins í málinu. 

Þá var málskostnaður milli aðila felldur niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert