Hættu við sökum veðurs

Skemmtiferðaskipið MSC Poesia þegar það var að koma til Ísafjarðarhafnar …
Skemmtiferðaskipið MSC Poesia þegar það var að koma til Ísafjarðarhafnar í morgun. Ljósmynd/Guðni Snær Stefánsson

Tvö skemmtiferðaskip hættu við komu til Ísafjarðarhafnar í morgun sökum veðurs. Hafnarstjóri segir að misvinda sé í bænum. Byrjað hafi verið að binda eitt skipið en hætt við. 

Hann áætlar að komur um 10% skipa til bæjarins falli niður sökum veðurs. 

Reyndu að binda en hættu við

Skemmtiferðaskipin Balmoral og MSC Poesia voru á leið til Ísafjarðarhafnar í morgun, en áhöfn Balmoral treysti sér ekki inn að bryggju.

„Vindáttin er þannig að það slær niður úr fjöllunum. Annað skipið Poesia kom upp að bryggju í morgun og var byrjað að binda, en það var svo hviðótt,“ segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar. Í kjölfarið hafi verið hætt við komu skipsins. 

„Þetta er bara Ísland og það getur allt skeð,“ segir hann.

Hann bætir við að Balmoral hafi í framhaldinu haldið til Akureyrar og Poesia til Reykjavíkur.

Mynd úr safni frá Ísafjarðarhöfn.
Mynd úr safni frá Ísafjarðarhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Um 10% hætta við sökum veðurs

Spurður út í fjölda þeirra skipa sem hætta við komu til Ísafjarðar sökum veðurs segir Hilmar það vera mjög óreglulegt, en minnist þess að fyrrasumar hafi verið einstaklega gott hvað veðrið varðar.

„Menn voru hissa eftir sumarið að þetta hafi ekki skeð oftar,“ segir Hilmar um fjölda skipa sem hættu við komu. 

„Þetta er mjög óreglulegt hversu oft þetta kemur fyrir, en maður á alveg von á því að það detti út um 10% af komum út af veðri,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert