Jæja, þetta verður seinasta árið hérna!

Sara Barsotti eldfjallafræðingur.
Sara Barsotti eldfjallafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í janúar og febrúar hugsa ég alltaf: Jæja, þetta verður seinasta árið hérna! Svo jafnar það sig þegar vorið kemur,“ segir hin ítalska Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands, hlæjandi, spurð hvernig hún kunni við sig á Íslandi.

Sara flutti hingað ásamt eiginmanni sínum og þremur ungum börnum árið 2013 og á þeim er ekkert fararsnið. 

Börnin hafa aðlagast vel enda voru þau svo ung þegar þau komu hingað. „Við lögðum strax mikla áherslu á að þau lærðu íslensku og það gekk mjög vel enda eru börn miklu móttækilegri fyrir nýju tungumáli en fullorðnir. Það að kunna tungumálið er besta leiðin til að byggja upp sambönd í nýju landi,“ segir Sara.

Sjálf hefði hún alveg komist upp með að tala bara ensku í vinnunni og raunar úti í samfélaginu, eins og við þekkjum, en henni fannst samt mikilvægt að læra tungumálið.

„Tungumálið er lykillinn að því að aðlagast og njóta nýs lands og ég er mjög fegin að ég lærði það. Það hjálpaði mér klárlega í því ferli að eiga börn; ég lærði mikið með þeim og annars hefði þetta örugglega tekið mun lengri tíma. Börnin hrista stundum höfuðið yfir íslenskunni minni og segja: Mamma, þetta er ekki svona!“

Hún hlær.

„Ég finn líka mun í vinnunni eftir að ég náði tökum á íslenskunni. Það auðveldar allt að tala sama tungumálið, vísindamenn, lögregla, almannavarnir og fleiri,“ segir Sara. 

Stekk ekki í burt

„Starfið hérna á Veðurstofunni er ástæðan fyrir því að ég kom hingað og ég er ákaflega þakklát fyrir það tækifæri. Matteo [eiginmanni hennar] líkar líka mjög vel í vinnunni sinni en hann elskar að vera á fjöllum og jöklum. Þannig að ekkert fararsnið er á okkur – alla vega ekki í bili. Krökkunum líður vel í skólanum og við í raun komin yfir það stig að geta tekið þau úr skóla hér og farið heim til Ítalíu. Þannig að við verðum hér alla vega næstu fimm árin, eða svo, þangað til börnin verða öll búin með framhaldsskóla. Eins og við höfum komið inn á þá eru þetta líka gríðarlega spennandi tímar fyrir mig faglega og maður stekkur ekkert burt frá þessum hræringum á Reykjanesi.“

Nánar er rætt við Söru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert