Mátt alls ekki heita Móari

Úr Fljótum í Skagafirði. Fólk frá Ysta-Mói er kallað Móarar …
Úr Fljótum í Skagafirði. Fólk frá Ysta-Mói er kallað Móarar og er af Mósættinni. mbl.is/Einar Falur

Mannanafnanefnd kvað nýverið upp nokkra úrskurði. Meðal beiðna sem teknar voru fyrir var Móari sem eiginnafn, og beiðni til vara um Móara sem millinafn. Nefndin hafnaði þessu nafni í báðum tilvikum.

Nefndin segir eiginnafnið Móari taka íslenskri beygingu í eignarfalli, Móara, og stríði hvorki gegn hljóðskipunar- né beygingarreglum íslensks máls. Í málinu reynir hins vegar á 2. mgr. 5 gr. laga um mannanöfn um að nafnið megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Kerfið sé samsafn reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli.

Bendir nefndin á að Móari sé samnafn, nánar tiltekið íbúaheiti, þ.e. Móari er sá sem býr eða á rætur að rekja til bæjarins Ysta-Móa í Fljótum. Önnur dæmi um íbúaheiti séu til að mynda Reykvíkingur, Gaflari og Keldhverfingur. Íbúaheiti hafi ekki verið notuð sem eiginnöfn, engin hefð sé fyrir því og þess vegna sé ekki hægt að fallast á eiginnafnið Móari.

Með sömu rökum fellst mannanafnanefnd ekki á beiðni um Móara sem millinafn. Það sé heldur ekki ættarnafn í skilningi laganna.

Nefndin kvað upp nokkra aðra úrskurði. Meðal nafna sem voru samþykkt voru Cyrus, Kriss, Sæ, Jórvík, Dímítrí, Althea, Bjartdís, Herkúles og Óður. Neitun fengu nöfnin Bergman, bæði sem eiginnafn og millinafn, Óðr og Boom.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert