Baldur: „Ég ætla að svara þessu kalli“

Baldur segir að fólk kalli eftir því að Ísland vinni …
Baldur segir að fólk kalli eftir því að Ísland vinni sem ein heild. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson skynjar mikinn meðbyr um þessar mundir en hann mælist með mesta fylgið í nýrri könnun Prósents. Hann segir að í samtölum sínum við fólk megi heyra ákall um að Ísland eigi að vinna sem ein heild.

„Við finnum fyrir miklum og vaxandi meðbyr. Það er alls staðar vel tekið á móti okkur, hvert sem við komum. Það er fullt út úr dyrum á öllum opnum fundum hjá okkur, þar sem við bjóðum upp á vöfflur, kaffi og samtal,“ segir Baldur í samtali við mbl.is spurður um nýjustu könnun Prósents.

Í nýrri könnun Prósents sem unnin var fyrir mbl.is og …
Í nýrri könnun Prósents sem unnin var fyrir mbl.is og Morgunblaðið mælist Baldur með 27,2% fylgi. Kort/mbl.is

Segir vel tekið í hugmyndir um forsetaembættið

Baldur kveðst vera búinn að þræða þorra Suðurlands og Austfirði þar sem hann hélt opna fundi og heimsótti vinnustaði. Hann er núna staddur á Siglufirði en kveðst einnig vera búinn að fara á Hrísey, Akureyri, Húsavík, Dalvík og Ólafsfjörð.

„Mér finnst alveg dásamlegt hversu vel er tekið á móti okkur og hversu vel er tekið í þær hugmyndir sem við berum á borð fyrir fólk um embætti forseta Íslands.“

Hann segir að þegar hann hafi boðið sig fram hafi hann gefið það upp að hann myndi vilja ferðast um landið í þrjár til fjórar vikur. Tilgangurinn væri að kynna málefnin og hans sýn á embættið en líka til þess að hlusta á landsmenn og heyra hvað liggur þeim á hjarta.

Fólk vill að litið sé á Ísland sem eina heild

„Landsmenn eru að kalla eftir því að við lítum á landið sem eina heild, hvort sem það kemur að atvinnumálum, samgöngumálum, heilbrigðismálum og menntamálum. Að við lítum á landið sem eina heild og við allir landsmenn lítum á það sem sameinar okkur frekar en það sem aðskilur okkur frá hvort öðru,“ segir Baldur.

Hann segir þetta vera áberandi kall frá landsbyggðinni og hyggst svara þessu kalli.

„Ég ætla að svara þessu kalli og tala með þessum hætti. Að kalla eftir því að við lítum á landið sem eina heild þegar kemur til dæmis að þessum málaflokkum.“

Á morgun mun hann funda á Sauðárkróki og Blönduós en svo kemur hann á höfuðborgarsvæðið til að opna kosningamiðstöð sína á Grensásvegi á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert