Fólk skoði bólusetningar fyrir ferðalög

Bólusetning.
Bólusetning. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hvetur fólk sem hyggur á ferðalög að fara yfir bólusetningar sínar og barnanna sinna hvort sem farið er á framandi slóðir eða stefnt í stutta ferð til nágrannalandanna.

Hún segir í tilkynningu mikilvægt að kanna með góðum fyrirvara hvort bæta þurfi við bólusetningum áður en flogið er af landi brott.

„Hingað til hefur fólk aðallega skoðað bólusetningar fyrir ferðalög á fjarlægar slóðir, til Asíu, Afríku eða Suður-Ameríku til dæmis,“ segir Nanna Sigríður Kristinsdóttir, fagstjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í tilkynningunni.

„Það hafa komið upp alvarlegir faraldrar í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarið sem kalla á að við endurskoðum þá nálgun og tryggjum að við séum nægilega vel bólusett þó við ætlum ekki í langferð.“

Meðal þess sem þarf að yfirfara fyrir ferðalög til Evrópu er hvort nauðsynlegt sé að fá örvunarskammt af bóluefni við sjúkdómum sem börn eru bólusett fyrir, til dæmis barnaveiki, kíghósta, stífkrampa og mænusótt ásamt því hvort bólusetja þurfi við lifrabólgu A og B.

Hægt er að fá ráðleggingar um bólusetningar fyrir ferðalög í netspjalli Heilsuveru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert