Íslendingar ein mest einmana þjóð heims

„Meginorsök langvinns einmanaleika er skortur á kærleika í uppvexti,“ segir Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og rithöfundur, í Dagmálum.

Síðastliðin fimm ár hefur Aðalbjörg skoðað einsemd frá ýmsum sjónarhornum. Nýlega gaf hún út bókina Einmana - tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar þar sem hún varpar ljósi á orsök og afleiðingar einmanaleikans á áhugaverðan hátt.

Aðalbjörg segir vaxandi einmanaleika vera víðtækt vandamál.
Aðalbjörg segir vaxandi einmanaleika vera víðtækt vandamál. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tólfta mest einmana þjóð í heimi

Samkvæmt nýjustu rannsóknum finna 36% Íslendinga stundum, oft eða stöðugt fyrir einmanaleika og er Ísland því í 12. sæti yfir mest einmana þjóðir heimsins en Brasilía trónir á toppi listans. Heimsmeðaltalið er 33% og mælist því einmanaleiki á meðal Íslendinga fremur hátt sé tekið mið af því. 

Aðalbjörg segir vaxandi einmanaleika vera víðtækt vandamál. Fyrir því geta verið fjölmargar ástæður líkt og ólík menning sem einkennist ýmist af einstaklingshyggju. Aðalástæðuna segir hún þó vera skort á tengslum og nánd í barnæsku.  

„Það þarf að vera manneskja þarna sem elskar til skilyrðislaust,“ segir hún. „Börn sem alast upp við vanrækslu, börn sem alast upp við ofbeldi á heimili, börn sem alast upp við fíkn eða eitthvað slíkt, þau alast upp við ótta,“ segir Aðalbjörg sem komst að því að þeir sem verða fyrir einhvers konar áföllum fyrir 18 ára aldur eiga í meiri hættu á finna fyrir viðvarandi einmanaleika.

Tengsl og tilgangur lykill að hamingjunni

„Eftir því sem áföllin eru fleiri því meiri líkur eru á því að þau muni hafa djúpstæð áhrif þig til langs tíma, eða alla ævi jafnvel.“ 

Nefnir hún áföll eins og að missa einhvern nákominn, einhver nákominn fer í fangelsi, kynferðisofbeldi og ýmis önnur áföll sem fólk í nútímasamfélagi verður fyrir og er að fást við á degi hverjum.

„Allt eru þetta þættir sem við vitum að fólkið hér í samfélaginu okkar, og börnin okkar, eru að upplifa í dag. Þannig við verðum bara hvert og eitt okkar að gera okkur grein fyrir því og hugsa hvernig við getum verið þorpið sem er að ala upp börnin.“

Skömmin sár

Hún segir skömm oftar en ekki vera eina af mörgum birtingarmyndum einsemdar.

„Já, það er bara þess skömm,“ segir Aðalbjörg og nefnir að þeir sem ekki alast upp við tengsl, nánd og kærleika burðist með skömmina út í lífið sem getur leitt til einsemdar.

„Þannig þú ert alltaf að leita eftir viðurkenningu, yfirleitt ómeðvitað. Í öllum tengslum sem að verða til á lífsleiðinni þinni ertu alltaf að leita eftir viðurkenningu og þú gerir kannski hvað sem er til að fá hana,“ lýsir hún og segir um leið að fólk sem á erfiða æsku að baki og hefur ekki leitað sér aðstoðar eiga í aukinni áhættu á að upplifa fleiri áföll. Þau geti leitt til áfallastreituröskunar og djúpstæðs einmanaleika. 

Smelltu hér til að horfa á viðtalið við Aðalbjörgu í heild sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert