Katrín: Jóhönnustjórnin talaði máli Íslands

Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrrum forsætisráðherra, segir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi talað máli Íslands og íslenskra hagsmuna á alþjóðlegum vettvangi.

Þetta kemur fram í nýjasta viðtali Spursmála þar sem talið berst að þeim málum sem skóku Ísland og íslenskt samfélag eftir bankahrunið 2008.

Katrín gegndi embætti menntamálaráðherra í stjórninni.

Katrín Jakobsdóttir er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar hlutverk …
Katrín Jakobsdóttir er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar hlutverk forseta Íslands en einnig langan pólitískan feril sinn. mbl.isKristinn Magnússon

Var eini málsvarinn að eigin sögn

Fullyrðingar hennar stangast á við það sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands hefur haldið fram á opinberum vettvangi, nú síðast í viðtali við Morgunblaðið í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins.

Þar sagðist hann hafa verið eini málsvari Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Ekki hluti af starfsskyldum forsetans

„Að þótt margt megi segja gott um þessa stjórn Jóhönnu og Steingríms þá vanræktu þau algjörlega að tala við fjölmiðla heimsins [...] Ég lenti í því sem forseti þarna í rúmt ár eða jafnvel lengur að vera eini málsvari Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Það er reyndar ekki hluti af starfsskyldum forsetans.“ sagði Ólafur Ragnar þar.

Ekki í verkahring menntamálaráðherra

Orðaskiptin um þessi mál má sjá og heyra í spilaranum efst í þessari frétt. En þau má einnig lesa í samantekt hér fyrir neðan.

Á sama tíma þegar þessi mál ganga yfir þá er Ólafur Ragnar úti um allan heim á alþjóðlegum fréttastöðvum, Bloomberg, Sky, BBC og annarsstaðar að halda uppi vörnum fyrir íslenska þjóð í atlögunni sem Bretar og Hollendingar gerðu að okkur. Forsætisráðherrann og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands gerðu það ekki. Ólafur Ragnar hefur í mörgum viðtölum, meðal annars hér hjá Morgunblaðinu lýst því yfir að hann hafi talið sig nauðbeygðan til að taka til varna fyrir þjóðina vegna þess að þið, ríkisstjórnin frá 2009-2013 gerði það alls ekki.

„Ég tel raunar að ríkisstjórnin hafi gengið þar fram og rifja ég upp utanríkisráðherra í þeim málum og fleiri ráðherra sem gengu þar fram fyrir skjöldu og voru einnig að halda uppi vörnum fyrir Ísland. Þess vegna segi ég að mér finnst mikilvægt að forsetinn geti nýtt sína stöðu á alþjóðavettvangi ef þörf er á,“ segir Katrín.

Reynslan mun skipta sköpum

Og hún bætir við:

„Ég get nefnt annað dæmi sem er nær okkur í tíma, sem er heimsfaraldurinn sem gekk hérna yfir í tvö ár. Sennilega einkennilegasti tími til að vera forsætisráðherra á síðari tímum að leiða þjóðina í gegnum það. Og þá skiptir griðarlega miklu máli, þegar við vorum algjörlega einangruð um tíma að geta beitt alþjóðlegum tengslum og alþjóðlegum samskiptum til að tryggja hagsmuni landsins. Og ég tel að ég hafi öðlast ákveðna reynslu í því sem geti verið mikilvæg. En ítreka að þar með tel ég ekki að forsetinn eigi að ganga inn á utanrikisstefnuna. Það tel ég ekki vera. Hún er mótuð...“

En það gerði Ólafur Ragnar þarna. Hann talaði þvert á það sem yfirvöld og framkvæmdavaldið gerði á sínum tíma og þið lyftuð ekki litla fingri við að bera hönd fyrir höfuð okkar. Það urðu margir vitni að þessu, til dæmis þegar Ólafur mætti í Hard Talk í BBC og lét þá heyra það.

„Ja, hann talaði máli þjóðarinnar, alveg tvímælalaust. En ég vitna í það sem ég sagði áðan. ÞAð gerðu líka ráðherrar í ríkisstjórninni. En ég gerði það ekki sem menntamálaráðherra, ég var ekki kölluð til í þau verkefni.“

En léstu heyra í þér inni í ríkisstjórninni, um það að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. og eftir atvikum utanríkisráðherrann myndu gera meira af þvi?

Með þjóðarhag að leiðarljósi

„Eins og ég ítreka þá töluðu þau fyrir hagsmunum Íslands á þessum tíma. Það gerði forsetinn líka og mín, þegar ég lít aftur þá held ég og veit það, því það er kannski það mikilvæga, því það er annað að lesa um þessi mál eða að standa í stórræðunum og þetta voru ekki auðveldir tímar fyrir íslenskt samfélag né íslensk stjórnmál og ég tel að þau sem sátu á þingi hafi þarna verið að vinna að þessum málum með þjóðarhag að leiðarljósi.

En þegar við horfum á niðurstöðuna, þar sem skuldirnar voru greiddar með eignum Landsbankans, þar sem Ísland vann málið og þar sem forsetinn beitti þessum rétti þá held ég að við getum horft á þessa atburðarás alla, atburðarásin sýnir að þjóðarhagur var hafður að leiðarljósi.“

Viðtalið við Katrínu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert