Réttlátara kerfi: Flestir fá 30 þúsund eða meira

Guðmundur Ingi Guðbrandsson kynnti breytingarnar í Safnahúsinu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson kynnti breytingarnar í Safnahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

95% örorkulífeyrisþega munu fá hærri greiðslur í nýju og einfölduðu greiðslukerfi. Þar af munu greiðslur til 74% þeirra hækka um 30.000 krónur eða meira á mánuði.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kynnti breytingarnar í Safnahúsinu nú fyrir hádegi undir yfirskriftinni „Öll með”. Kynnt var einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi á fundinum. 

Fyrirhugaðar breytingar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi. Stuðningur eykst við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila verður komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.

„Tökum betur utan um fólk“

„Fólk á ekki að mæta þröskuldum heldur þjónustu. Við umbyltinguna tökum við betur utan um fólk en áður og búum til hvata til að gera því kleift að blómstra. Grunnhugsunin er sú að við séum öll með og skiptum öll máli,“ sagði Guðmundur Ingi á fundinum. 

Ráðherra benti á að breytingarnar væru langþráðar og að ákall hefði verið eftir því svo árum skipti að kerfinu yrði breytt og það bætt. Mikil áhersla væri í nýja kerfinu á að draga úr hindrunum og aðstoða fólk sem vildi og gæti stundað atvinnu að gera það, en ekki síður að halda utan um þau sem ekki taka þátt á vinnumarkaði.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir fundarstjóri, Huld Magnús­dótt­ir, for­stjóri Trygg­inga­stofn­un­ar, Sig­ríður Dóra …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir fundarstjóri, Huld Magnús­dótt­ir, for­stjóri Trygg­inga­stofn­un­ar, Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, for­stjóri Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, og Vig­dís Jóns­dótt­ir, for­stjóri VIRK, á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal nýmæla í nýja kerfinu:

  • Samvinna þjónustuaðila og samhæfingarteymi: Samhæfingarteymi hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustuaðila og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
  • Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur: Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur stoppa í göt sem eru í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests.
  • Nýr örorkulífeyrir: Tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar sameinast í einn flokk: Örorkulífeyri. Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
  • Hlutaörorkulífeyrir: Hlutaörorkulífeyrir hefur í för með sér verulega aukinn stuðning við þau sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði en sem þó eru talin geta tekið þátt á vinnumarkaði að einhverju leyti.
  • Dregið úr hindrunum: Fólk sem fær greiddan örorkulífeyri má í nýju kerfi hafa 100.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki. Fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri og er í hlutastarfi getur haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki.
  • Virknistyrkur: Virknistyrkur grípur fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu með aðstoð Vinnumálastofnunar í allt að 24 mánuði.

Samantekt um breytingarnar

Mælti fyrir frumvarpi

Lengi hefur verið brýnt að endurskoða örorkulífeyriskerfið og mælti ráðherra á dögunum fyrir frumvarpi á Alþingi vegna breytinganna. Meginefni þess snýr að breytingum á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.

Nýtt og einfaldað greiðslukerfi

Eins og áður sagði munu 95% örorkulífeyrisþega fá hærri greiðslur í nýju og einfölduðu greiðslukerfi. 74% munu hækka um 30.000 krónur eða meira á mánuði, 6% hækka um 10.000 til 30.000 kr. á mánuði og 15% hækka um allt að 10.000 kr. á mánuði

Þá kynnti ráðherra á fundinum reiknivél þar sem fólk getur borið saman hvað það fær í örorkulífeyri í núverandi greiðslukerfi og hvað það myndi fá í nýju greiðslukerfi. Reiknivélin miðast við þau sem hafa áunnið sér full réttindi í íslenska almannatryggingakerfinu, eru búsett hér á landi og hafa 75% örorkumat, að því er segir í tilkynningu. 

Vigdís Jónsdóttir.
Vigdís Jónsdóttir. mbl.is/Kristófer Liljar

Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, ræddi í sínu innleggi á fundinum um áhrif fyrirhugaðra breytinga á fólk í endurhæfingu. Þá sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, frá aðkomu heilsugæslunnar, og Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, sagði frá aðkomu stofnunarinnar að breytingunum.

Öryrkjabandalagið er með íbúðir í Hátúni en þar búa margir …
Öryrkjabandalagið er með íbúðir í Hátúni en þar búa margir við mjög kröpp kjör. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert