Andlát: Björn Theodór Líndal

Björn Theodór Líndal lögmaður er látinn, en hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði laugardaginn 20. apríl sl., 67 ára að aldri.

Björn var fæddur 1. nóvember árið 1956, sonur hjónanna Páls Líndals, fyrrverandi borgarlögmanns og ráðuneytisstjóra, og Evu Úlfarsdóttur Líndal, húsmóður og deildarstjóra.

Hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi þaðan árið 1976. Hann hóf síðan nám við lagadeild Háskóla Íslands og lauk embættisprófi þaðan 1981.

Að loknu laganámi starfaði Björn í viðskiptaráðuneytinu, en árið 1986 hóf hann störf hjá Alþjóðabankanum í Washington DC, þar sem hann vann til 1988. Árið 1989 tók hann við starfi aðstoðarbankastjóra Landsbanka Íslands þar sem hann starfaði til 2003. Eftir það hóf hann rekstur sem sjálfstætt starfandi lögmaður sem hann vann við til dánardægurs.

Björn gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina, hann var formaður stjórnar Barnaverndarráðs 1983 til 1986, í stjórn Nordiska Projektportfonden 1983 til 1988 og Fjölgreiðslumiðlunar hf. 2009 til 2012. Björn var vinsæll og vinamargur. Helsta áhugamálið var stangaveiði sem hann stundaði með fjölskyldu og vinum hvert sumar í áratugi. Ein eftirlætisveiðiá hans var Laugardalsá við Ísafjarðardjúp þar sem hann veiddi með fjölskyldu sinni og vinahjónum sem eiga fallegar minningar þaðan. Hann veiddi með vinum sínum í mörgum af þekktustu laxveiðiám landsins og var Vatnsdalsá þar í uppáhaldi. Hann var góður ræðumaður og píanóleikari og lék á als oddi í góðra vina hópi.

Björn kvæntist Sólveigu Guðmundsdóttur lögfræðingi 8. júlí 1983, en Sólveig lést 12. desember 2010. Sólveig var deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu frá 1990 til dánardægurs. Þau eignuðust tvö börn, Vigdísi Evu, f. 1983, og Guðmund Pál, f. 1986. Vigdís Eva er lögfræðingur að mennt, gift Þórhalli Axelssyni viðskiptafræðingi, en Guðmundur Páll er lögfræðingur að mennt og kvæntur Kristínu Láru Helgadóttur lögfræðingi.

Sólveig átti þrjú börn úr fyrra hjónabandi, þau Sigyn Eiríksdóttur, Signýju Eiríksdóttur og Óskar Örn Eiríksson. 

Barnabörn Björns eru þau Björn Hilmir, Óðinn Helgi, Axel Reginn, Freyja Sólveig og Sólveig Eva.

Seinna kynntist Björn Sigríði Kristinsdóttur, sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu, og bjuggu þau saman í Hafnarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert