Mæta eftirspurn með nýju húsi

Dalvegur 30. Húsið er nú komið í fulla útleigu.
Dalvegur 30. Húsið er nú komið í fulla útleigu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fasteignafélagið Íþaka áformar að hefja í sumar byggingu skrifstofuhúss á lóðinni Dalvegi 30a í Kópavogi og eru verklok áætluð vorið 2026. Íþaka hefur nýverið reist skrifstofuhús á lóðinni Dalvegi 30 þar við hlið og leigt út öll rýmin í byggingunni.

Pétur Freyr Pétursson viðskiptastjóri Íþöku segir fyrirtækið hafa samið við Origo um leigu á stórum hluta fyrirhugaðrar byggingar. Viðræður standi yfir við fleiri aðila sem sýni húsinu áhuga.

„Samkvæmt gildandi deiliskipulagi lóðarinnar má byggja þarna tvö hús til viðbótar. Vegna áhuga skrifstofu- og þjónustufyrirtækja á að vera með starfsemi sína á færri og stærri hæðum höfum við hins vegar óskað eftir því að fá að reisa eina stærri byggingu í stað tveggja minni. Það auðveldar leigutökum að vera með láréttan rekstur. Til dæmis fór stærsti leigutakinn hjá okkur á Dalvegi 30, Deloitte, frá því að vera á sex hæðum í Turninum við Smáratorg í Kópavogi í að vera á tveimur hæðum hjá okkur,“ segir Pétur Freyr.

Pétur Freyr Pétursson viðskiptastjóri Íþöku boðar uppbyggingu.
Pétur Freyr Pétursson viðskiptastjóri Íþöku boðar uppbyggingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil eftirspurn

Hvernig er leigumarkaður fyrir atvinnuhúsnæði?

„Það er mikil eftirspurn eftir hágæðaskrifstofuhúsnæði. Við hefðum getað leigt út sum rýmin á Dalvegi 30 nokkrum sinnum.“

Hvað einkennir hágæðaleigurými?

„Það skiptir miklu máli að vera með góða loftræstingu og góða hljóðvist. Það er að mörgu að hyggja. Sól er lágt á lofti yfir vetur, vor og haust en hærra á lofti yfir sumarið hér á landi. Húsið á Dalvegi 30 er hannað með þetta í huga og gluggarnir þar eru töluvert minni á suðurhliðinni en til norðurs. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að fólki líði sem best inni í byggingunni.

Það er líka kostur að hafa góð tækifæri til útivistar og heilsuræktar. Frá Dalveginum eru margar göngu- og hlaupaleiðir og stutt í gróðursæl útivistarsvæði. Þaðan fara nokkrir hlaupahópar í hádeginu en starfsfólk fyrirtækja í húsinu hefur aðgang að sturtum og búningsklefum í kjallara.

Birta flæðir inn um miðrýmið á Dalvegi 30
Birta flæðir inn um miðrýmið á Dalvegi 30 mbl.is/Kristinn Magnússon

Við áformum jafnframt að hafa um 200 fermetra líkamsrækt í kjallaranum í nýju byggingunni á Dalvegi 30a sem verður aðgengileg starfsfólki fyrirtækja úr báðum húsum.

Áttu von á að verða búinn að ganga frá leigusamningum fyrir meirihluta rýma á Dalvegi 30a áður en húsið er tilbúið?

„Já, ég er sannfærður um að við verðum búin að leigja út hvern einasta fermetra í húsinu áður en húsið verður klárt. Svo mikil hefur eftirspurnin eftir húsinu á Dalvegi 30 verið að undanförnu. Það hafa margir sýnt Dalvegi 30a áhuga þótt við séum ekkert farin að auglýsa.“

Hvernig er að standa í uppbyggingu við þetta vaxtastig?

„Það er afar krefjandi. Ég er ekki viss um að við myndum ráðast í þessar framkvæmdir við þessar aðstæður nema af því að við erum komin í samstarf við Origo, sem er öflugur leigutaki og frábært fyrirtæki.“

Komið í útleigu. Hluti af skrifstofuhúsnæðinu á Dalvegi 30.
Komið í útleigu. Hluti af skrifstofuhúsnæðinu á Dalvegi 30. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sniðnar að þörfum Deloitte

Vilja fyrirtækin koma að hönnunarferlinu?

„Já. Á Dalvegi 30 voru til dæmis tvær efstu hæðirnar algerlega sniðnar að þörfum Deloitte, 3. hæðin að þörfum Reiknistofu bankanna og önnur rými í húsinu að þörfum þeirra fyrirtækja sem þar eru nú til húsa. Þegar fyrirtæki geta látið sérhanna skrifstofuhúsnæði sitt að eigin þörfum getur það skilað miklum ávinningi,“ segir Pétur Freyr.

Hvað verður nýja húsið margir fermetrar? Hvað verða mörg stæði í kjallara?

„Ef Kópavogsbær veitir okkur heimild til að ljúka uppbyggingu á lóðinni með þeim hætti sem við höfum óskað eftir verður nýbyggingin um það bil 7.300 fermetrar ofanjarðar. Heimild er fyrir samtals 470 bílastæðum á lóð og í bílakjallara, samkvæmt gildandi deiluskipulagi, og við reiknum með að fullnýta þá heimild,“ segir Pétur Freyr.

Svona er áformað að skrifstofuhúsið á Dalvegi 30a muni líta …
Svona er áformað að skrifstofuhúsið á Dalvegi 30a muni líta út. Teikningar/ASK arkitektar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka