Mannréttindadómstóllinn getur ekki litið framhjá staðreyndum

Dómur Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu nýverið um að svissneska ríkið hefði brotið á rétti samtaka eldri kvenna með því að bregðast ekki við loftslagsbreytingum hefur verið gagnrýndur víða. Jóna Þórey Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Rétti, segir að þessi gagnrýni á Mannréttindadómstólinn sé ekki ný af nálinni.

„Það sem þarf líka að hafa í huga í þessu samhengi, og dómstólinn tekur aðeins á þessu í dóminum, að til þess að tryggja réttarríkið, tryggja að lögum sé framfylgt og að lagareglum sé fylgt af löggjafa og framkvæmdavaldi þá verða dómstólar að geta tekið á þessum lögum og reglum. Mannréttindasáttmálinn er lög, hann hefur ígildi laga, hefur til dæmis verið lögfestur á Íslandi, og þegar það eru einhver afskipti af réttindunum sem sáttmálinn tryggir, eins og líf, vellína og heilsa fólks, þá verða dómstólar að geta tekið á því hvernig þessi lög og réttindi eru tryggð.


Þó að Parísarsáttmálinn sé pólitískt plagg að mestu og loftslagsmálin séu oft talin stefnumarkandi og ekki bein lög, þá verða þau málefni laganna þegar þau hafa svo bein áhrif á mannréttindi. Dómstóllinn fer bara mjög ítarlega yfir það að hann getur ekki litið framhjá staðreyndum. Hann kemst ekki hjá því að takast á við stöðuna sem er komin upp í vísindunum, í loftslagsmálum, og áhrifunum sem þetta hefur beinlínis á fólk og á réttindi þess.

Með þeim rökum segir dómstóllinn að þetta geti ekki verið undanskilið lögsögu dómsins, þetta geti ekki undanskilið valdsviði hans að fjalla um hvernig brotið sé á mannréttindum fólks af því það sé orsakað af loftslagsmálum. En hann býr að sama skapi til mjög háan þröskuld fyrir einstaklinga til að koma málum að. Fyrirsjáanlega er mjög erfitt fyrir einstakling, nánast útilokað, þó ég þori ekki að fullyrða um það, að koma máli að fyrir dómstólnum vegna loftslagsbreytinga, því að afleiðingarnar þurfa að vera stórkostlegar og beinar fyrir þann einstakling, þannig að dómstóllinn er að þræða þessa línu: já þetta er stefnumarlandi fyrir ríki, já þau hafa sérstaklega rúmt svigrúm til að ákveða hvaða aðferðir þau nota til að ná markmiðunum. Að sama skapi geta þau ekki litið fram hjá því sem vísindin segja, sem rannsóknir og staðreyndir segja, að ef ekki er gripið til ákveðinna aðgerða til þess að ná tilteknum markmiðum, erum við að sjá inngrip í mannréttindi og hann verður að geta brugðist við því þegar ríki eru ekki að uppfylla skyldur sínar hvað það varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert