Búin að ákveða sig og hafði engin áhrif á manninn

mbl.is/Ásthildur

„Ég ætla að kjósa Baldur Þórhallsson. Mér finnst hann til dæmis hafa mikla þekkingu á smáríkjum, sem við erum, og svo finnst mér fjölskylduböndin sem þau tengjast - öll fjölskyldan - ofboðslega falleg,“ segir Sunnlendingurinn Ingibjörg Zoëga í samtali við mbl.is í Krónunni á Selfossi.

Í kvöld heldur Morgunblaðið og mbl.is forsetafund með Baldri Þórhallssyni klukkan 19.30 á Hótel Selfossi og af því tilefni var rætt við gangandi vegfarendur á Selfossi og tekinn á þeim púlsinn um komandi forsetakosningar.

Ingibjörg Zoëga.
Ingibjörg Zoëga. mbl.is/Ásthildur

Reynsla Katrínar muni nýtast vel

Björgvin Jóhannesson hótelstjóri segir í samtali við mbl.is að hann sé ansi nálægt því að vera búinn að gera upp hug sinn og það sé Katrín Jakobsdóttir sem fái líklegast hans atkvæði.

Hvað vilt þú sjá í fari forseta?

„Mér finnst mikilvægt að forsetinn þekki vel stjórnskipun landsins og hann þarf að vera sameiningartákn,“ segir Björgvin.

Hann nefnir að Katrín hafi verið forsætisráðherra í ríkisstjórn ólíkra flokka þar sem hafi þurft að sameina flokka með ólík sjónarmið.

„Ég lít á það sem hlutverk forseta að nýta sína stöðu og tengsl til að kynna landið og koma á mikilvægum viðskiptasamböndum. Ég held að reynsla Katrínar og hennar tengslanet erlendis komi til með að nýtast þjóðinni vel.“

Björgvin Jóhannesson.
Björgvin Jóhannesson. mbl.is/Ásthildur

Mun fylgjast með kappræðum

Helga Gísladóttir kveðst ekki vera búin að ákveða sig og telur nær víst að hún muni horfa á forsetakappræður í kosningavikunni til að taka lokaákvörðun. Það er þó einn frambjóðandi sem heillar hana.

„Ég er ekki búin að ákveða mig en mér lýst mjög vel á hana Höllu Hrund (Logadóttur),“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Helga Gísladóttir
Helga Gísladóttir mbl.is/Ásthildur

Munu kjósa Höllu Hrund

Hjónin Ómar Hafsteinsson og Bíbí Ísabella voru að koma úr Krónunni er blaðamaður náði tali af þeim og þau voru bæði búin að ákveða hvað þau ætluðu að kjósa.

„Ég ætla kjósa Höllu Hrund,“ segir Ómar. Bíbí var á sama máli.

„Ég er alveg búin að ákveða mig og ég hafði engin áhrif á hann (Ómar),“ sagði hún kímin og bætti við:

„En ég ætla að kjósa Höllu Hrund.“

Bíbi segir skipta máli að forsetinn hafi góða menntun og góða og hlýja framkomu við fólk. Hún kveðst ekki þekkja Höllu Hrund persónulega en telur hana bera þessa kosti.

Ómar tekur undir þetta hjá konunni og bætir við:

„Og vera þjóðhollur, hafa tilfinningu fyrir auðlindunum og passa upp á þær.“

Bíbí Ísabella og Ómar Hafsteinsson.
Bíbí Ísabella og Ómar Hafsteinsson. mbl.is/Ásthildurmbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert