Beitti piparúða og kylfu – Tveir á slysadeild

Lögreglustöðin á Hverfisgötu.
Lögreglustöðin á Hverfisgötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti þar sem einstaklingur beitti piparúða og kylfu.

Tveir sem urðu fyrir árásinni voru fluttir á slysadeild og er málið í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Innbrot í tvö heimahús og kjörbúð

Einstaklingur var handtekinn upp úr klukkan tíu í gærkvöldi í Reykjavík grunaður um innbrot í heimahús. Hann fannst skammt frá vettvangi með peninga og verðmæti sem hann gat ekki gert grein fyrir. Hann var í mjög annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa þangað til hægt er að ræða við hann.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í annað heimahús í Reykjavík en þar hafði þjófavarnarkerfi farið í gang. Lögreglan fór strax á staðinn og var einn handtekinn á vettvangi grunaður um innbrotið. Sá var með meint þýfi á sér og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknarmálsins.

Tilkynnt var um innbrot í kjörbúð í Reykjavík skömmu eftir klukkan 4 í nótt. Tilkynnandi gat lýst þeim sem voru að brjóta sér leið inn í verslunina og voru tveir einstaklingar handteknir skammt frá vettvangi grunaðir um innbrotið.

Einn ökumaður var jafnframt handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis um eittleytið í nótt í Reykjavík. Þá hafði hann ekki öðlast ökuréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert