Gyrðir Elíasson hlýtur Maístjörnuna

Gyrðir ásamt Margréti Tryggvadóttur, formanni Rithöfundasambandsins, og Guðrúnu Evu Mínervudóttur, …
Gyrðir ásamt Margréti Tryggvadóttur, formanni Rithöfundasambandsins, og Guðrúnu Evu Mínervudóttur, sem sat í dómnefnd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gyrðir Elíasson hlýtur Maístjörnuna í ár fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni / Meðan glerið sefur en verðlaunin, sem veitt eru fyrir ljóðabók ársins 2023, voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í dag. 

„Það er með gleði og þakklæti sem ég tek við þessari viðurkenningu í dag,“ sagði Gyrðir þegar hann veitti verðlaununum viðtöku.

Maístjarnan er einu verðlaunin á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók og voru þau nú veitt í áttunda sinn. Þeim er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2023 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi

Dómnefnd skipuðu Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Jakub Stachowiak fyrir hönd Landsbókasafns.

Í umsögn þeirra um verðlaunabækurnar segir:

„Ljóðin í ljóðatvennu Gyrðis Elíassonar eru hljóðlát, hlédræg, ásækin og jafn áhrifamikil og skáldið sem yrkir þau. En áhrif höfundarverks Gyrðis á íslenskar bókmenntir eru óumdeild og um leið svo samofin hugsun okkar að við tökum ekki alltaf eftir þeim. Yrkisefnin koma víða að: draumar og veruleiki tvinnast saman á látlausan hátt og eins náttúran og hið manngerða, gleði og sorg, húmor og depurð, sveit og borg, himinn og mold. Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt. Skáldið notar ljóðlistina til þess að afhjúpa fyrir lesandanum hið dularfulla í hversdeginum sem hann sækir innblástur í á einlægan og hógværan en um leið margslunginn hátt. Vangaveltur tilvistarlegs eðlis og leit að tilgangi lífsins eru höfundi hugleiknar og mikilvægar en þau aldagömlu spursmál ganga í sífellda endurnýjun lífdaga og koma lesandanum því stöðugt á óvart. Ljóðverkið Dulstirni og Meðan glerið sefur er dýrmæt áminning um að hið fagra býr í einfaldleikanum og er aldrei langt undan.“ 

Aðrar tilnefndar bækur

Fimm aðrar bækur voru tilnefndar til Maístjörnunnar í ár. 

  • Áður en ég breytist eftir Elías Knörr
  • Vandamál vina minna eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur
  • Flagsól eftir Melkorku Ólafsdóttur og Unu Hlíf Bárudóttur
  • Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur
  • Í myrkrinu fór ég til Maríu eftir Sonju B. Jónsdóttur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert