Tæpar 900 milljónir í talsmannaþjónustu

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra gerði grein fyrir kostnaði og verklagi vegna …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra gerði grein fyrir kostnaði og verklagi vegna talsmannaþjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd. mbl.is/Eyþór

Kostnaður vegna talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi tímabilið maí 2022 og út árið 2023 var um 880 milljónir og heildarfjöldi mála 6.311, þar af 2.989 vegna fjöldaflótta frá Úkraínu.

Þetta kemur fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um lögfræðikostnað vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd árin 2022 og 2023.

Spurði Inga hvaða lögfræðingar og lögmannsstofur hefðu fengið greitt úr ríkissjóði fyrir þjónustuna téð ár og hve mikið hver aðili hefði fengið greitt hvort ár.

Um hundrað á lista

Svaraði ráðherra því til að Rauði krossinn hefði sinnt lögfræðilegri hagsmunagæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd til 30. apríl 2022. Í auglýsingu frá 3. mars 2022 hefði talsmannaþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd verið boðin út og lögfræðingum boðið að sækja um að sinna hlutverki talsmanns gegnum heimasíðu Útlendingastofnunar þar sem nánari samningsskilmála væri að finna. Væru um hundrað talsmenn skráðir á lista stofnunarinnar sem aðgengilegur væri á vef hennar.

Tók ráðherra það fram í svari sínu að kostnaðartölurnar væru áætlaðar þar sem vegna breytinga á skráningu hjá Útlendingastofnun lægi heildarkostnaður ársins 2023 ekki nákvæmlega fyrir. Vitað væri þó að frá júní til desember það ár hefði hann verið um 345 milljónir króna og mætti því áætla að kostnaður yfir allt árið hefði verið um 700 milljónir.

„Hvað varðar nánari afmörkun á því hvaða lögfræðingar og lögmannsstofur fengu greitt vegna talsmannaþjónustu, sundurliðað eftir fjárhæð á ári, er sá þáttur fyrirspurnarinnar það viðamikill að ekki er unnt að svara honum með einföldum hætti og í stuttu máli í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis,“ segir svo í svarinu.

Málum útdeilt á jafnræðisgrundvelli

Útgefnir reikningar hefðu verið hátt í 11.000 á tímabilinu og því of umfangsmikið að taka það saman hvað hver og einn aðili hefði fengið greitt.

Í öðrum lið fyrirspurnar sinnar spurði þingmaðurinn hvernig það væri ákveðið hvaða lögfræðingar eða lögmannsstofur önnuðust lögfræðiþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Svaraði ráðherra því til að starfsmaður Útlendingastofnunar útdeildi málum til talsmanna á jafnræðisgrundvelli og sendi þeim aðila sem næstur væri í röðinni fundarboð vegna fyrirhugaðs viðtals við umsækjanda um alþjóðlega vernd.

16.500 kr. fyrir hverja byrjaða stund

„Í kjölfarið fær móttakandi þess frest, að hámarki 48 klukkustundir eftir að fundarboð er sent honum, til að taka afstöðu til þess hvort hann hyggist samþykkja eða hafna fundarboðinu. Ef talsmaður hafnar fundarboði er fundarboð sent á þann talsmann sem er næstur í röðinni. Skömmu áður en viðtal hefst við umsækjanda fer eiginleg skipun fram en þá er skipunarbréf undirritað, ljósritað og afhent talsmanni, þ.e. að því gefnu að aðili á talsmannalista hafi samþykkt fundarboð sem barst honum og umsækjandi hafi veitt skriflegt samþykki sitt fyrir því að fyrrnefndur aðili taki að sér hagsmunagæslu fyrir hans hönd,“ segir þá í svari ráðherra.

Að lokum spurði þingmaðurinn hve hátt tímagjald ríkissjóður greiddi lögfræðingum fyrir þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og hvaða viðmið giltu um hve margar vinnustundir lögfræðinga ríkissjóður greiddi á grundvelli sérhverrar umsóknar.

Kvað ráðherra þóknunina nema 16.500 krónum fyrir hverja byrjaða klukkustund að viðbættum virðisaukaskatti og miðað væri við að eðlilegt umfang þjónustu við hvern og einn umsækjanda væri um sjö klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert