„Það verða bakaðar fínar kökur“

Samsett mynd/mbl.is/Ljósmynd/Bake My Day

Þingmaður Viðreisnar segir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi haft sig í frammi í embættinu nánast eins og hann sé hættur í pólitík og kominn í forsetaframboð eins og forveri hans, Katrín Jakobsdóttir.

„Það er kannski dálítið eins og þau séu bæði í framboði til forseta og öll pólitík í pásu á meðan,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi fyrr í dag.

Þá vék hún máli sínu að endurprentun 30 þúsund bóka sem var fargað á dögunum sökum þess að formálinn í fyrstu útgáfu var skrifaður af Katrínu Jakobsdóttur.

„Og úr bókaförgun fór forsætisráðherra eðlilega rakleiðis í það að greina þingheimi og þjóðinni frá því hvernig kökur verði á borðum á afmæli lýðveldisins. Það verða bakaðar fínar kökur, bækur og kökur,“ sagði Þorbjörg.

Fólk eigi að taka vextina á kassann

Hún segir að Bjarni hafi í gær á þingfundi viðrað áhyggjur sínar af því að fólk væri að fara yfir í verðtryggð lán úr óverðtryggðum. Með því hafi Bjarni verið að senda skilaboð til fólksins í landinu.

„Fólk á bara að taka vaxtaokrið á kassann og fá sér köku á afmæli lýðveldisins. Það er sérstakt áhyggjuefni fyrir forsætisráðherra að fólk sem þurfi að ná endum saman skuli haga sér svona. Sérstakt áhyggjuefni að fólkið í landinu leiti skjóls og reyna að lækka afborganir af lánum sínum,“ sagði hún og bætti við:

„Þessi innkoma nýs forsætisráðherra, í fúinni ríkisstjórn hér inni í þingsal eftir mánuð í embætti, kjarnar því á einhvern kómískan hátt erindi – eða erindisleysu – ríkisstjórnarinnar sem talar um bækur, kökur og fólkið í landinu sem neitar að hlýða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert