Ekki lakari árangur við styttingu náms

Langþráðu takmarki náð og stúdentshúfur fara á flug, en stytting …
Langþráðu takmarki náð og stúdentshúfur fara á flug, en stytting náms til stúdentsprófs virðist ekki hafa skilað lakari stúdentum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stytting náms til stúdentsprófs á sínum tíma var ekki óumdeild, eins og vænta mátti af svo veigamikilli breytingu. Síðla vetrar vakti tölfræðirannsókn hagfræðiprófessoranna Gylfa Zoëga og Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur mikla athygli, sérstaklega sú niðurstaða að einkunnir nemenda, sem höfðu útskrifast úr hinu nýja fyrirkomulagi, reyndust 0,5 lægri en hinna.

Gallinn var sá, að þegar tekið var tillit til aldurs nemenda hvarf tölfræðileg marktækni áhrifa á einkunnir nemenda, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í liðnum mánuði. Ekki var þó að sjá að rannsakendur tækju það til sín.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu á dögunum. Blaðið leitaði skoðunar sérfræðinga á sviði tölfræði og hagrannsókna um gildi rannsóknarinnar og hvort hún gæfi tilefni til þessarar ályktunar.

Þeir voru misfúsir að blanda sér í deilu um fræðileg efni á opinberum vettvangi, en þó var nefnt að einn höfunda hefði haldið fyrirlestur um rannsóknina en viðtökur þeirra í salnum, með reynslu af hagrannsóknum, verið „hófstilltar“.

Eins að hin aðferðafræðilega áskorun í rannsókn af þessu tagi væri hve mismunandi framhaldsskólarnir væru og einkunnir lítt samanburðarhæfar.

Nytsöm breyting

Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði, segir gott framtak og þakkarvert þegar hagfræðingar í fremstu röð beina athygli sinni að samfélagsmálum og skipulagi opinberrar þjónustu.

„Stytting námstíma í framhaldsskólum um eitt ár var veruleg breyting á okkar skólakerfi. Grein hagfræðinganna þriggja um áhrif hennar á námsárangur og námsframvindu viðkomandi nemenda í háskólanámi finnst mér bæði tímabær og afar gagnleg.“

Hann segir tekið á efninu með skipulegum hætti og athyglisverðar tölfræðilegar niðurstöður birtar í greininni, sem hann telur fyllilega ná máli sem fræðigrein á sviði menntunarhagfræði.

Ragnar telur það hins vegar sérlega athyglisvert að þær tölfræðiniðurstöður, sem birtar eru í greininni, gefi ekki tilefni til að ætla að námsárangur í háskóla hafi orðið marktækt lakari vegna styttingar framhaldsnámsins.

„Þegar lífaldur, sem alþekkt er að ræður miklu um námsárangur, er meðal útskýringarbreyta eins og er tölfræðilega nauðsynlegt, er ekki unnt að hafna þeirri tilgátu að stytting framhaldsnáms hafi ekki neikvæð áhrif á námsárangur í háskóla.“

Það telur hann mikilsverða vísbendingu um að stytting framhaldsnámsins hafi sparað viðkomandi nemendum ár í skóla án umtalsverðrar skerðingar á námsgetu þeirra í háskóla. Þjóðhagslegt virði slíkrar breytingar nemi líklega tugmilljörðum kr. á ári.

3 ára nemar stóðu sig betur

Helgi Tómasson tölfræðiprófessor segist ekki hafa skipt sér af þessari vinnu, en kveðst vissulega hafa heyrt af vandlætingu á oftúlkun ályktana rannsóknarinnar. Bendir hins vegar á það höfundum til hróss, að ályktanir á ensku séu varfærnari en birst hafi í íslenskum fjölmiðlum.

Hann telur mögulega of mikið hafa verið gert úr nákvæmni niðurstaðna, en jafnframt gerir Helgi einnig talsverðar tæknilegar athugasemdir við tölfræðilíkön rannsakenda og óttast að þar gæti ýmissa mótsagna, sem vert sé að gefa gaum.

„Mitt mat er að talnaflaumur í handritinu segi lítið,“ telur Helgi.

„Ályktunin ætti að vera að breytingin [úr fjórum árum í þrjú] hafi lítil áhrif.“

Hann bendir á að gögnin bendi til þess að einstaklingsáhrif nemenda hafi mest að segja og áhugavert sé að bera saman framhaldsskóla innbyrðis og háskóladeildir innbyrðis, þar geti miklu munað. Ekki sé ljóst hvort þriggja ára nemendur dreifist eins á háskólagreinar og fjögurra ára nemendur.

„Mín reynsla er að 5,0 í stærðfræðigreiningu I í verkfræði sé betri frammistaða en 8,0 í stærðfræði I í hagfræði,“ segir Helgi og bendir á að einkunnir séu óstaðlaður mælikvarði á frammistöðu og notaðar á ólíkan hátt á milli deilda.

Eins að kynjamunur ráðist mögulega af mismunandi vali kynja á háskólagreinum, þar sé meiri breytileiki hjá körlum. Því sé hæpið að leggja of mikið út af niðurstöðum rannsóknarinnar.

Jafnframt bendir Helgi á að í umræðunni hafi verið talað um tölfræðilega marktækni af nokkrum misskilningi. Marktækni er mælikvarði á tölfræðilega nákvæmni en ekki mikilvægi.

„Samfélagsleg áhrif breytingarinnar úr fjórum árum í þrjú verða fyrst ljós þegar sést hvort nýju kynslóðirnar skila fleiri mannárum á vinnumarkaði og hversu hratt þær ná að byggja upp verðmæta reynslu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert