Seldi kannabis við Kópavogskirkju

Maðurinn seldi fíkniefni á bílastæði við Kópavogskirkju í Hamraborg.
Maðurinn seldi fíkniefni á bílastæði við Kópavogskirkju í Hamraborg. mbl.is/Arnaldur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á fíkniefnalögum.

Einn þeirra var gómaður af lögreglu árið 2022 að selja kannabis á bílastæði við Kópavogskirkju í Hamraborg.

Lögregla varð vitni að málsatvikum

Lögregla hafði afskipti af manninum í bifreið sinni eftir að hafa veitt því athygli skömmu áður að annarri bifreið hafi verið lagt andspænis bifreið karlsins. Farþegi bifreiðarinnar settist í framsæti bifreiðar mannsins og var þar um tíma áður en hann hélt aftur yfir í bifreið sína. 

Í kjölfarið veitti lögreglan báðum bifreiðum eftirför og manninum tilkynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um sölu og dreifinga fíkniefna. Í hinni bifreiðinni voru þrjár konur sem kváðust hafa keypt 3 grömm af kannabis af karlinum og framvísuðu lögreglu efninu. 

Framburður karlsins var talin ótrúverðugur en þegar lögregla hafði fyrst afskipti af honum og spurði út í konuna sem settist í bifreið hans sagði hann hana hafa verið kærustu sína. Þeim málflutningi breytti hann við síðari skýrslutöku og sagði hana hafa skyndilega komið inn í bílinn farþegamegin og reynt að fá hann með sér í einhverja veislu.

Dómstóllinn taldi aftur á móti framburð kvennanna þriggja afar trúverðugan. 

Fundu tæp 2.700 g af kannabisefnum

Lögreglumenn voru við eftirlit í Kópavogi vegna gruns fíkniefnamisferli í húsnæði en þar fannst megn kannabislykt á herbergjagangi. 

Lyktin var sögð sérlega megn við ákveðnar dyr. Engin svör bárust þegar lögregla bankaði upp á, en dyrnar voru opnaðar eftir að lögregla reyndi að spenna dyrnar upp með kúbeini. Þar reyndust karlarnir tveir vera til húsa þar á meðal maðurinn sem var gómaður við sölu á kannabis úr bifreið sinni. 

Við leit á húsnæðinu handlagði lögreglan tæp 2.700 grömm af kannabisefnum. Karlanir sögðu efnin ekki vera ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni og héldu því fram að annar þeirra hafi enga aðkomu átt að meðhöndlun efnanna. Var sá framburður talinn ótrúverðugur.

Efnin voru gerð upptæk og einn karlanna var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í fjóra mánuði og annar þeirra í skilorðsbundið fangelsi í átta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert