Kjörseðlar og ráðuneytisstarfsmaður á leið til Spánar

Utanríkisráðuneytið harmar að borið hafi á skorti á kjörseðlum
Utanríkisráðuneytið harmar að borið hafi á skorti á kjörseðlum Brynjar Gauti

Fleiri kjörseðlar eru nú á leið til Kanaríeyja til hlutaðeigandi kjörræðismanna á Kanaríeyjum og Tenerife og hefur verið boðað til kosningaafunda á Suðurhluta Gran Canaría og Tenerife til að bregðast við stöðunni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu stjórnarráðsins en upp kom sú staða að kjörseðlar kláruðust á kjörstað á Kanaríeyjum og þurftu einhverjir að yf­ir­gefa kjörstað án þess að hafa greitt for­setafram­bjóðanda sín­um at­kvæði. 

Kláruðust einnig Orihuela Costa

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, samskiptastjóri ráðuneytisins, að kjörseðlar hafi einnig klárast í Orihuela Costa á Alicante-svæðinu í gær. Viðbótarkjörseðlar hafi komið þangað í dag og því sé áfram hægt að greiða utankjörfundaratkvæði hjá ræðismanni Íslands á staðnum.

Hafa viðbótarkjörseðlar verið sendir til hlutaðeigandi kjörræðismanna á Spáni og er starfsmaður ráðuneytisins á leiðinni til Kanaríeyja til að aðstoða við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar. 

Boða til kosningafundar

Til að bregðast við stöðunni sem upp sé komin hafi ræðismenn Íslands á Spáni, í samráði við utanríkisráðuneytið, ákveðið að bjóða upp á sérstakan kosningafundi á suðurhluta Gran Canaría milli klukkan 11 og 14 á morgun og á suðurhluta Tenerife á fimmtudag, föstudag og laugardag milli klukkan 10 og 14 að staðartíma.

Nánari staðsetningar utankjörfundaatkvæðagreiðslna verður komið á framfæri á Facebook innan tíðar, en þess að auki verður áfram hægt að greiða utankjörfundaratkvæði á ræðisskrifstofum Íslands á Spáni á hefðbundnum opnunartíma.

Harma skortinn á kjörseðlum

Kveðst utanríkisráðuneytið harma að borið hafi á skorti á kjörseðlum vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Spáni fyrir komandi forsetakosningar á Íslandi.

Ræðismenn leggi mat að hverju sinni á hversu marga kjörseðla þurfi sem byggi m.a. á fjölda kjósenda í fyrri kosningum. Svo virðist sem fjöldi Íslendinga sem dvelur nú um stundir í landinu hafi verið vanmetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert